Nokkuð háværar raddir virðast vera uppi um að það sé skynsamlegt að fella niður skuldir fyrirtækja í sjávarútvegi. Í gær tjáði þingmaðurinn Árni Johnsen sig í viðtali um nauðsyn þess að afskrifa skuldir í sjávarútvegi hratt og örugglega. Slíkt er auðvitað fjarstæða og í hrópandi ósamræmi við það hvernig meðferð skulda heimilanna er háttað.
Það virðist ljóst að fyrirtæki í sjávarútvegi standa höllum fæti eins og mörg íslensk fyrirtæki þessa dagana. Sjávarútvegurinn er lykilútflutningsgrein Íslands og þegar gengi krónunnar veikist ætti afkoma sjávarútvegsins að stórbatna mjög hratt. Þetta virðist hins vegar ekki vera staðan þar sem sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið skuldsett í erlendri mynt og jafnframt verið í gjaldeyrisskiptasamningum til að verja gengisáhættu sína. Þannig veiki fall krónunnar því útgerðir þegar frekar ætti að vænta hins þveröfuga. Miðað við fyrirtækjarekstur á Íslandi síðustu ár kemur þetta kannski ekki endilega svo mjög á óvart en það er hins vegar fráleit krafa að þessi fyrirtæki eigi að njóta einhverra sérkjara hvað sín lánamál varðar.
Þegar fyrirtæki á ekki fyrir afborgunum af skuldum sínum eða ef eignir eru orðnar lægri en skuldir þarf að endurskipuleggja fjármögnun þess. Stundum nægir að lengja í skuldum og gefa fyrirtæki í tímabundum greiðsluörðugleikum möguleika á að greiða skuldir sínar síðar. Um leið og það er hins vegar ljóst að fyrirtækið muni ekki standa undir skuldum þarf að grípa til viðameiri aðgerða. Þá getur þurft að fella niður skuldir en um leið og það er gert eru hluthafar fyrirtækisins búnir að tapa sínu.
Í tilviki sjávarútvegsfyrirtækjanna á að gera þetta á alveg sama hátt. Eigendur fyrirtækis sem þarf að láta fella niður skuldir glata einfaldlega eignarrétti sínum á fyrirtækinu. Kröfuhafar eiga þá að stíga inn, taka yfir eignarhald á viðkomandi fyrirtæki, endurskipuleggja fjármögnun þess með viðeigandi afskriftum skulda og umbreytingu í hlutafé. Í kjölfarið er svo eðlilegt að nýju eigendurnir, þ.e. kröfuhafarnir, selji fyrirtækið með nýtt fjármögnunarskipulag, eða eigi það áfram ef þeir telja það heppilegra. Það á ekki að fella niður skuldir, endurskipuleggja fjármögnun og gefa svo fyrri eigendum minna skuldsetta fyrirtækið aftur.
Sjávarútvegurinn er Íslandi gríðarlega mikilvægur og það er að sjálfsögðu ekki skoðun höfundar að það eigi að eyðileggja rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Hér er verið að segja að eignarhald þeirrar verðmætu starfsemi sem sjávarútvegurinn er eigi að fara úr höndum þeirra sem misstu reksturinn úr böndunum og yfir til þeirra sem fjármögnuðu reksturinn og var lofað endurgreiðslu þeirrar fjármögnunar.
Árni Johnsen reynir í áðurnefndu viðtali að firra stjórnendur og eigendur útgerða ábyrgð á fjármálaklúðri þeirra með því að varpa ábyrgðinni á fjármálaráðgjöf bankanna. Ef það er virkilega staðreyndin að stjórnendur fyrirtækjanna skildu ekki það sem þeir voru að gera er það bara þeim mun meiri ástæða til þess að skipta um stjórnendur á rekstrinum. Líklegra er að menn hafi fyllilega vitað hvað þeir voru að gera, vildu hagnast mikið en það hafi ekki gengið upp. Ef sá hagnaður hefði skilað sér hefðu þeir notið hans en að sama skapi verða þeir taki ábyrgð á tapinu og eiga ekki að fá það ekki endurgreitt.
Það eru miklar byrðar á íslenska ríkinu og fjölmörgum íslenskum heimilum. Það er alveg óverjandi að taka ákvörðun um að fella niður skuldir við ríka einstaklinga í gegnum fyrirtæki þeirra á meðan þeir sem minna hafa eiga að greiða sínar skuldir.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011