„Verið óhræddir“

Í heimi er dimmt og hljótt,
hjarðmenn sjá um nótt
ljós í lofti glæðast,
það ljós Guðs dýrðar er,
hjörtu þeirra hræðast,
en Herrans engill tér:
„Óttist ekki þér“.
-Björn Halldórsson

Í heimi er dimmt og hljótt,
hjarðmenn sjá um nótt
ljós í lofti glæðast,
það ljós Guðs dýrðar er,
hjörtu þeirra hræðast,
en Herrans engill tér:
„Óttist ekki þér“.
-Björn Halldórsson

I
Verið óhræddir. Þetta voru fyrstu orð engilsins þegar hann flutti fjárhirðunum fyrstum manna gleðifregnina af fæðingu lítils barns í fjárhúsi í Betlehem. Fæðingunni sem er sú þýðingarmesta í sögunni vegna þeirra verka sem barnið litla átti síðar eftir að vinna –mannkyni öllu til heilla og sáluhjálpar.
Mönnum stendur gjarnan uggur af aðstæðum sem þeir hafa ekki áður reynt. Þegar þeir standa í fyrsta sinn frammi fyrir einhverju sem er þeim framandi eða óhugsandi og skal engan undra. Maðurinn leitar í reynslu sína til þess að ljá upplifun sinni af veröldinni merkingu. Þegar þá reynsluþekkingu þrýtur eru góð ráð dýr. Nagandi óvissa tekur völdin, en óvissan og óttinn eru oftar en ekki samferða á slóðum reynsluleysisins.

II
Segja má að slíkar aðstæður hafi runnið upp hér á landi í byrjun október þegar margir stóðu í fyrsta sinn frammi fyrir veruleika sem þeir þekktu ekki eða þótti óhugsandi að gæti orðið. Bankakerfi landsins eins og menn þekktu það var á örfáum nóttum horfið og komið í umsjá ríkisins. Efnahagsþrengingar í þjóðarbúskapnum og meðal fjölda heimila fylgdi í kjölfarið. Undrar einhvern þótt óvissa og uggur um framtíðina hafi gripið um sig meðal fjölda fólks og ríki jafnvel enn í hugum þeirra?
Þetta eru eðlileg viðbrögð og skiljanleg með öllu.
Þetta er nokkuð sem mín kynslóð hefur blessunarlega aldrei þurft að reyna áður og því leggst þetta að ég held einna þyngst á hana. Ef reynsla kynslóðanna segir okkur þó eitthvað þá er það að þrenginga- og erfiðleikatímabil, hvort sem það er í sögu þjóða eða einstaklinga, hafa alltaf tekið enda að lokum.
Sólin kemur alltaf upp að morgni –af því hún getur ekki annað.
Það sama gildir um okkur. Við getum ekki annað en staðið upp að nýju, dustað rykið af herðum og hnjám og tekist á við það verkefni sem framundan er og nýta þau tækifæri sem í rústunum býr. Framrás tímans býður ekki annan kost og komandi kynslóðir eru okkur hvatning til þess að byggja hér upp samfélag sem verður fremst meðal þjóða á allan mögulegan hátt. Annað markmið væri uppgjöf af okkar hálfu.
Við sjáum því að í reynslubanka okkar er innistæða til þess að takast á við og ljá þessum erfiðu aðstæðum merkingu. Við þurfum bara að leita hana uppi og leysa hana út.

III
En annars konar reynsla er einnig til staðar sem getur hjálpað okkur. Við eigum alltaf mögueikann á því að sækja okkur styrk í þann veruleika sem býr utan hins mannlega heims en er þó á sama tíma kyrfilega inngróinn í mannlega reynslu og þekkingarheim. Trúin borgar kannski ekki reikningana eða útvegar okkur vinnu. Í henni má þó finna óþrjótanlega uppsprettu huggunar og í hana má sækja styrk á erfiðum stundum.
Nýtum það tækifæri sem jólin gefa okkur til þess að treysta böndin sem öllu skipta í lífi okkar. Verum með þeim sem skipta okkur mestu, ræktum sambandið við þá, gleðjumst saman og grátum saman –ef svo ber við.
Íhugum boðskap englanna á Betlehemsvöllum og tileinkum okkur þau skilaboð sem þeir færðu. Það er engin ástæða að óttast því yður er í dag frelsari fæddur. Angistar er ekki þörf því við erum að eilífu hólpin. Við eigum að sækja okkur styrk í þessa fullvissu.
Ég tel rétt að ljúka þessu á einu versi til viðbótar úr sálmi Björns Halldórssonar sem vitnað var í hér í upphafi enda er það svo að skáldin ná alltaf að tjá þá hugsun sem við þrælumst við að koma frá okkur í knöppum og fáorðum stíl sem býr þó yfir meiri fegurð og tærleika en nokkuð það sem við gætum mögulega komið á blað.

Ó Guðs hinn sanni son,
sigur, líf og von
rís með þér og rætist,
þú réttlætisins sól,
allt mitt angur bætist,
þú ert mitt ljós og skjól.
Ég held glaður jól.
Guð gefi okkur öllum gleðileg Jól.