Að öllu gamni slepptu eru það jólin sem mig langar til að skrifa um í þessum pistli. Jólin eru mér mjög hugleikin þessa dagana, ótrúlegt en satt á þessum tíma. Undir venjulegum kringumstæðum væri það vegna þess að ég ætti eftir að kaupa eina gjöf sem ég væri í stökustu vandræðum með, eða einhverju ámóta merkilegu. Nú er annað uppi á teningnum.
Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og nýlega varð nokkuð til þess að ég upplifði nýtt sjónarhorn á þessa hátið, nýjan vinkil. Ég heyrði af verkefni sem er kallað Jól í skókassa og er samvinnuverkefni KFUM og KFUK og Biblíuleshópsins Bleikjunnar frá árinu 2004. Verkefnið gengur s.s. út á það að fá fólk til að gleðja börn á aldrinum 2ja til 18 ára sem lifa við fátækt og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru allar settar í skókassa og til þess að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælt með því að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Skókassarnir eru síðan sendir til Úkraínu og þeim dreift m.a. á munaðarleysingjaheimili og barnaspítala.
Ég var mjög spennt fyrir þessu verkefni og byrjaði snemma. Þegar ég fór að útbúa kassana og kaupa það sem mælt var með í þá varð mér illt í hjartanu. Meðal þeirra hluta sem áttu að fara í kassana voru tannbursti og tannkrem og sápustykki. Það var einnig beðið um greiðu og þvottapoka, og skriffæri.
Eins gaman og mér þótti að taka þátt í þessu merkilega verkefni, get ég ekki hætt að hugsa um þessi litlu börn sem bíða með eftirvæntingu eftir að fá tannbursta og tannkrem frá Íslandi, sem á síðan að duga þeim út allt árið. Sérstaklega hefur mér verið hugsað til þessa í allri þessari umræðu um þá Íslendinga sem eiga um sárt að binda núna. Ég vil alls ekki gera lítið úr þeirri neyð sem margir búa við um þessar mundir, en við Íslendingar megum ekki gleyma því hvað við erum rík og búum við góðar aðstæður.
Ég frétti síðan af því að í haust hefði tengiliður verkefnisins haft samband með áhyggjur af því að verkefnið yrði blásið af. Hann hafði heyrt fréttir af efnahagsástandinu hérlendis og skildi það vel ef svo væri. Hann var fullvissaður um það að verkefnið stæði ennþá til, og í ár reyndust hafa safnast tæpir 5.000 kassar og einum fleiri en í fyrra. Íslendingar virðast hafa tekið gildin sín í gegn á undanförnum vikum og nýlega bárust fréttir af því að aldrei hefðu fleiri komið í Kattholt til að fá sér kött. Sigríður í Kattholti vildi meina að það tengdist e.t.v. því sem væri að gerast í þjóðfélaginu.
Á heimasíðu verkefnisins, skokassar.net, eru þessi orð skrifuð í þessu samhengi:
„Þrátt fyrir þær miklu þrengingar, sem þeir hafa orðið að reyna, hefur ríkdómur gleði þeirra og hin djúpa fátækt leitt í ljós gnægð örlætis hjá þeim.“
2.Kor 8:2
Ég vona að pistillinn hafi ekki gert út af við þá sem vonuðust til að fá eina góða útskýringu í viðbót á efnahagsástandinu. Gleðileg jól.
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021