Segja má að fram til þessa hafi utanríkisstefna Íslands grundvallast af fjórum stoðum. Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu er ein stoðanna, varnarsamningurinn við Bandaríkin önnur, aðildin að EES samningnum sú þriðja og Norðurlandasamvinnan sú fjórða. Þegar formlegt samstarf Norðurlandanna hófst með Norðurlandaráði árið 1952 að þá höfðu menn miklar væntingar til samstarfsins enda kom á daginn að slíkt samstarf var mjög til jákvætt og varð þróunin sú að Norðurlöndin ákváðu með sér samvinnu á fjölmörgum sviðum.
Norðurlöndin voru í upphafi í fararbroddi í heiminum þegar kom að milliríkjasamstarfi og sást það bezt á því að vegabréfasamstarf Norðurlandanna hófst strax á 6. áratug síðustu aldar en af þess völdum gátu Norðurlandabúar ferðast án vegabréfa yfir landamæri hinna Norðurlandanna.
Samstarf Norðurlandanna í Norðurlandaráði og Ráðherraráði Norðurlandaráðs er mjög öflugt og tekur til fjölmargra sviða. Þó má greina mikla hnignun í samstarfinu þegar litið er til þess að vinna ráðsins virðist að verulega miklu leyti vera borin uppi af embættismönnum frekar en kjörnum fulltrúum. Einnig má greina vissa hnignun þegar litið er til viðhorfs fólks gagnvart Norðurlandasamvinnunni. Fæstir gera sér grein fyrir því nú á tímum út á hvað Norðurlandasamvinnan gengur og verður að játast að þrátt fyrir að pistlahöfundur hafi fylgst mjög vel með starfi Norðurlandaráðs nú á þriðja ár að þá virðist það ákaflega ómarkvisst og ógagnsætt. Fyrr á tímum voru helztu kanónur úr röðum kjörinna fulltrúa á þjóðþingum Norðurlandanna valdar til setu í Norðurlandaráði en eitthvað virðist hafa dregið úr áhuganum í seinni tíð. Rennur það frekari stoðum undir þá kenningu að mjög hafi dregið úr áhrifamætti ráðsins.
Framkoma Svía og Dana gagnvart Íslendingum og Norðurlandasamvinnunni fyrr í vetur vekur líka upp fjölmargar spurningar. Svíar og Danir ákváðu frekar að snúast á sveif með Evrópusambandinu og hindra afgreiðslu umsóknar Íslands til alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Er það sjálfsagt í fyrsta skipti sem aðrar Norðurlandaþjóðir ganga svo bersýnilega gegn hagsmunum annars Norðurlandanna á ögurstundu. Er óhjákvæmilegt að þessi viðbrögð frændþjóða okkar leiði til þess að menn velti fyrir sér raunverulegu innihaldi Norðurlandasamstarfsins og hvort það eigi sér bjarta framtíð.
Svo virðist sem að þau Norðurlönd sem eru innan Evrópusambandsins eigi með sér nánara samstarf á þeim vettvangi en innan Norðurlandasamstarfsins. Einnig er augljóst að þær Norðurlandaþjóðir sem eru innan Evrópusambandsins líta á þann samstarfsvettvang sem mun mikilvægari en Norðurlandasamstarfið. Þurfi þær að velja á milli funda á vegum ESB eða Norðurlandaráðs að þá þarf ekki að spyrja að því hvor fundurinn yrði fyrir valinu.
Leiðir þetta til þess að óhjákvæmilegt er að spyrja þeirrar spurningar hvort framtíð Norðurlandasamstarfsins liggi í gegnum Evrópusambandið. Fjölmargir sérfræðingar hafa fullyrt að gangi Noregur og Ísland í Evrópusambandið að þá muni Norðurlandaráð eflast sem aldrei fyrr. Myndu Norðurlöndin þá standa feti framar en flestar aðrar Evrópusambandsþjóðir sökum þess að þær væru eina landsvæðið innan ESB sem hefði með sér svo náið samstarf. Myndi það vafalaust leiða til þess að hlutur Norðurlandanna innan ESB yrði meiri og rödd þjóðanna sterkari. Norðurlandaráð fengi að vísu að vissu leyti nýtt hlutverk, en það væri þó svipað því hlutverki sem það hafði í upphafi. Væri næsta víst að þá færu á nýjan leik helztu kanónur norrænna stjórnmálamanna að sækjast eftir setu á Norðurlandaráðsþingi því þar myndu hlutirnir gerast og þar yrði alvöru stefna mótuð til framtíðar.
Nú þegar fólk er að gera upp við sig hvort Ísland eigi heima meðal Evrópusambandsþjóða eða annars staðar og þegar lagt er mat á það utanríkis- og varnarsamstarf sem við höfum tekið þátt í og lagt okkar traust á, að þá er mjög mikilvægt að allir hlutir séu skoðaðir. Norðurlandasamvinnan skipar því miður ekki lengur þann sess sem hún hafði og verður að segjast að dregið hafi mjög úr mikilvægi hennar, í hið minnsta í huga Norðurlandaþjóða sem gengið hafa inn í Evrópusambandið. Sem upplýst þjóð að þá verðum við að taka allar slíkar staðreyndir með í reikninginn og hafa í huga þegar við mörkum okkur nýja framtíðarsýn.
- Evrópulaun - 18. janúar 2010
- Bókadómur: Frá Evróvision til evru – allt um Evrópusambandið - 14. október 2009
- Sannleikurinn um sáttmálann - 22. september 2009