Lægri vextir!
(en bara fyrir óreiðumenn)

Alþingi samþykkti nú á dögunum lög sem fela í sér að dráttarvextir munu lækka um 4% um áramót. Líkt og margt annað sem þingmenn hafast að er þetta gert af góðum hug en takmarkaðri fyrirhyggju.

Alþingi samþykkti nú á dögunum lög sem fela í sér að dráttarvextir munu lækka um 4% um áramót, í 21,5%. Líkt og margt annað sem þingmenn hafast að er þetta gert af góðum hug en takmarkaðri fyrirhyggju. Margir Íslendingar átta sig nú á því að þau lán sem þeir tóku í góðærinu voru allt of há, og eiga í vandræðum með að standa í skilum. Fyrir þá er innheimta dráttarvaxta auðvitað sár, og lækkun þeirra kemur sér vel. En ekkert er ókeypis í henni veröld. Í sumum tilfellum eru það ríkisbankarnir sem taka á sig lækkun dráttarvaxta, og þar með skattgreiðendur á endanum. Slíkt er skiljanlegt að vissu marki, þótt ríkið þurfi einnig að gæta hagsmuna þeirra sem á endanum munu borga brúsann af neyslu undanfarinna ára.

En í mörgum tilfellum eru það einkafyrirtæki sem verða fyrir barðinu á vanskilum, hvort sem það eru bankar, heildsalar eða þjónustufyrirtæki. Reyndar er í tísku að agnúast út í auðvaldið þessa dagana, en flest íslensk fyrirtæki eru allt annars eðlis en útrásarbankar ársins 2007. Þetta eru lítil og stór fyrirtæki sem þurfa nú að berjast í erfiðu umhverfi, þar sem ríkið skiptir sér af æ fleiri þáttum viðskiptalífsins. Þetta er fólkið sem hefur lagt sig í líma við að standa í skilum en verður nú fyrir barðinu á þeim sem af einhverjum ástæðum geta ekki staðið við sínar skuldbindingar.

Dráttarvextir upp á 21,5% eru auðvitað ekki lágir að nafninu til. En verðbólga er 18%, svo raundráttarvextir verða ekki nema 3,5% ef þetta verður niðurstaðan um áramót. En fyrir heildsala, sem þurfa að fjármagna vanskil viðskiptavina sinna, er staðan enn verri því yfirdráttarvextir, til dæmis hjá ríkisbankanum Glitni, eru nú 26,5%. Svo heildsali sem fjármagnar sig á yfirdrætti þarf nú að standa skil á 4% vaxtamun á þeirri skuld sem er í innheimtu og því láni sem hann þarf að taka vegna vanskilanna.

Í tilburðum sínum til að aðstoða þá sem eru í mestu vandræðunum má ríkið ekki ganga svo nærri þeim sem hefur tekist betur til að þeir endi einnig í þroti. Þetta gildir jafnt um dráttarvexti sem aðrar tilskipanir um fjármagnsviðskipti. Þótt ríkisbankarnir og Íbúðalánasjóður séu nú stærstu lánadrottnarnir þá voru (ótrulegt nokk) til á Íslandi fjármálastofnanir sem ekki keyrðu sig í kaf og eru enn í einkarekstri. Það gengur ekki upp að björgunaraðgerðir ríkisins séu á kostnað þeirra fyrirtækja sem voru skynsamlega rekin, og á kostnað viðskiptavina slíkra fyrirtækja.


Athugasemd: Eftir að ofangreindur pistill birtist var tilkynnt að grunnur til reiknings dráttarvaxta muni hækka um áramót, sem vegur að hluta til á móti lækkun vanefndarálags. Því er útlit fyrir að dráttarvextir verði 25% eftir breytinguna. Vaxtamunur þeirra sem þurfa að fjármagna vanskil viðskiptavina sinna verður því lægri en ella, þótt engu að síður sé útlit fyrir að dráttarvextir verði lægri en yfirdráttarvextir.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)