Það er áhugavert að fylgjast með formanni Samfylkingarinnar þessa dagana. Hún fer mikinn hvar sem hún kemur fram. Það er ljóst að forsætisráðherradraumar eru farnir að láta á sér kræla. Fylgi Samfylkingarinnar sveiflast upp á við, á meðan samstarfsflokkurinn tekur höggið. Það virðist vera erfitt fyrir Samfylkingarmenn að sitja hjá og horfa á fylgið fara í hæstu hæðir, en á sama tíma vera í hálfgjörri stjórnarandstöðu í ríkisstjórn þar sem rauða rósin er ekki komin við stýrið í stjórnarráðinu. Gamlir draumar um þriggja flokka vinstri stjórn gætu ræst verði boðað til kosninga á næstunni. Það er orðið langt síðan Íslendingar bjuggu við slíka stjórn, en tímarnir núna minni óneitanlega á síðasta slíka tímabil þar sem verðbólga og atvinnuleysi fór upp úr öllu valdi. Þessi tími vekur óneitanlega upp ljúfsárar minningar hjá vinstri manninum sem er búinn að láta sig dreyma í mörg ár um skattahækkanir, að bremsa af einkageirann og ríkisvæða allt sem köld hönd ríkisins kemst yfir.
Orsökin fundin – nú síðast kom fram í ræðu hjá formanni Samfylkingarinnar að orsök þeirrar stöðu sem Ísland býr nú við sé ofsafrjálshyggja. Það væri áhugavert að fá nánari útlistun á hvað felst í skilningi hennar á þessu orði og hvernig þessi meinta ofsafrjálskyggja leiddi okkur á þann stað sem við erum í dag, en utanríkisráðherrann er búin að greina vandan og búin að finna orsökina langt á undan okkur öllum hinum. Það eitt og sér er útaf fyrir sig áhugavert. Ég veit ekki betur til þess en að ofsainnleiðing Evrópureglna sé meðal annars valdur þess skuldafens sem við sitjum nú í.
Nú um langa hríð hefur það verið eitt helsta umtalsefni fulltrúa Samfylkingarinnar um hvort og hvernig Sjálfstæðismenn ræði um Evrópumál innan síns flokks. Oftar en ekki hefur heyrst úr horni Samfylkingarinnar að Sjálfstæðismenn verði að „opna umræðuna“ þar sem að fyrirliggjandi stefna flokksins og niðurstöður féll ekki að þeirra skoðunum. Nú þegar fyrirliggur að Sjálfstæðismenn hafa stofnað sérstaka Evrópunefnd til þess að meta stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu kemur köld kveðja frá formanni samstarfsflokksins sem nú hefur lýst því yfir að stjórnarsamstarfinu sé sjálfhætt samþykki samstarfsflokkurinn ekki að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Maður hefði talið að formaðurinn myndi fagna því að þessi mál væru endurskoðuð hjá samstarfsflokki sínum í ríkisstjórn. Það hlýtur að teljast til tíðinda þegar formaður annars ríkisstjórnarflokksins setur fram hótun af þessu tagi.
Sjálfstæðisflokkurinn lætur að sjálfsögðu ekki hóta sér með þessum hætti og verður niðurstaðan hvað Evrópumálin varðar útkljáð á meðal flokksmanna á Landsfundi líkt og önnur mál án tillits til hótunar Samfylkingarinnar. Maður hlítur að spyrja sig við hvaða stjórnmálafl formaður Samfylkingarinnar er að daðra með þessum orðum sínum?
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020