Á dögunum var haldinn svonefndur borgarafundur í Háskólabíói þar sem ráðherrum úr ríkisstjórninni auk Seðlabankastjóra var boðið. Það var heilmikil spenna í loftinu fyrir þennan fund og það var eins og hvorki áhorfendur né ráðherrarnir vissu almennilega hvað væri í vændum. Gátu ráðherrarnir átt von á eggjakasti og uppþotum? Eða áttu gestirnir von á loðnum svörum og illskulegu viðmóti ráðherranna í sinn garð?
Segja má að hvorugt hafi verið raunin. Fundurinn gekk heilt yfir vel fyrir sig, þótt eflaust megi finna eitthvað að honum – fundarstjórinn kannski fullgjarn á að koma sér að og ráðherrarnir sumir hverjir stuttorðir, spurningarnar sumar hverjar bitlitlar og framsögumennirnir óþarflega orðljótir á köflum. En heilt yfir kom þetta vel út og það var ánægja meðal allra eftir á. Ástæðan fyrir því að þetta tókst svona vel var einfaldlega sú að þetta voru milliliðalausir endurfundir fólksins og stjórnmálamannanna. Einfalt og látlaust form – ponta, svið og stólar var allt sem þurfti til.
Samskipti þessara tveggja hópa – almennings og stjórnmálamanna – hafa ekki verið nægilega mikil og regluleg að undanförnu. Þeir hittast og sjást annað veifið, í kringum kosningar og við og við í fjölmiðlum en alltof sjaldan eru samskiptin bein og ótrufluð. Þar kemur til að fjölmiðlar, sem sinna þessu hlutverki dag frá degi, geta sjaldnast náð öllum ráðherrum eða þingmönnum saman á einn og sama staðinn heldur velja þeir úr og fljótt verða til stjórnmálamenn sem eru meira áberandi og þaulsætnari í fjölmiðlum en aðrir, þ.e. sækja meira í að vera þar og það er meira leitað til þeirra.
Fjölmiðlar eiga í umfjöllun sinni mjög erfitt með að búa til sama vettvang og hægt er að gera á stórum, opnum fundi þar sem menn ræða málin milliliðalaust. Tíminn í viðtalsþáttum og fréttum er yfirleitt þröngt skammtaður, ummæli manna klippt til og frá og sjaldnast svigrúm til að veita ítarlegar útskýringar.
Þetta er ekki ósvipað og að bera saman kosti þess að eiga samskipti í gegnum Facebook annars vegar og tölvupóst hins vegar. Tölvupósturinn sýnir yfirleitt bara eitt og eitt svar í einu á meðan Facebook sýnir þér heilt samfélag og samskiptin þar á milli.
Í raun væri það ákaflega kærkomin viðbót við umræðurnar og karpið í sölum Alþingis, umfjöllun fjölmiðla og almenna stjórnmálafundi þar sem nokkrir ræðumenn tala um afmörkuð mál að við og við komi ríkisstjórn og þingmenn einfaldlega saman á stórum fundum, sem standa öllum opnir, og ræði málin. Svörin og spurningarnar eru þá óklippt og blátt áfram og það þarf ekki að gera hlé með reglulegu millibili til að koma að auglýsingum. Allt er undir og það er engin fyrirfram gefin dagskrá. Spurningarnar eru frá venjulegu fólki sem vill t.d. vita hvers vegna lán þess hafa hækkað eða hvað sé framundan í atvinnumálum, en ekki eingöngu frá pólitískum mótherjum sem freista þess að koma höggi á andstæðinga sína.
Það er mikið til þess vinnandi að reyna að opna samskipti milli stjórnmála og almennings og gera þau milliliðalausari. Slíkar samkomur þyrftu ekki að einskorðast við þá erfiðu tíma sem við lifum núna heldur ættu þær að vera hluti af pólitíkinni.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021