Smáborgarapólitíkin og flótti ungs fólks

Fram að þessu hefur Ísland haft því láni að fagna að flest hæfileikaríkt fólk sem fer utan til náms kemur heim að loknu námi. Þetta hefur mikið með það að gera að við getum haldið uppi þolanlegu stjórnkerfi og einnig að Reykjavík er miklu áhugaverðari borg en borgir af sambærilegri stærð í öðrum löndum þegar kemur að menning, listum og vísindum. En nú eru óvissutímar. Ef illa er haldið á spilunum mun hæfileikafólk einfaldlega hverfa á brott.

Ég bý í New York. Þegar talið berst að Íslandi er ég oft spurður hversu margir búa á Íslandi. Viðmælendur mínir verða iðulega ansi hissa þegar ég segi þeim að Íslendingar séu einungis um 300.000 talsins. Þeir benda á að það séu færri en búi í “smábæjum” eins og Wichita, Omaha eða Islip og spyrja hvernig það gangi eiginlega að svona fátt fólk manni stjórnkerfi heils lands.

Ég reyni að útskýra: Málið er að hæfileikafólk á Íslandi sem fer utan til náms kemur nánast allt aftur til Íslands að loknu námi. Í smábæjum í Bandaríkjunum fer hæfileikaríkt fólk til náms og kemur aldrei aftur. Það er því miklu meira af hæfileikaríku fólki í Reykjavík en í bæjum í Bandaríkjunum með álíka íbúafjölda. Þetta hefur mikið með það að gera að við getum haldið uppi þolanlegu stjórnkerfi og einnig að Reykjavík er miklu áhugaverðari borg en Wichita þegar kemur að menning, listum og vísindum.

Svona var þetta að minnsta kosti á síðustu öld. Það verður athyglisvert að sjá hvort hæfileikafólk heldur áfram að snúa heim til Íslands. Heimurinn er alltaf að minnka. Nú er nánast ókeypis að tala í (mynd)síma milli landa í gegnum tölvur og miklu auðveldara og ódýrara að ferðast milli landa. Íslendingar erlendis eru því ekki nærri jafn einangraðir frá fjölskyldu sinni og þeir voru í denn. Þar að auki er möguleikar fólks til þess að starfa erlendis allt aðrir en fyrir mannsaldri.

Af þessum sökum er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að passað sé vel upp á að Ísland sé aðlaðandi land fyrir hæfileikaríkt ungt fólk. Eitt lykilatriði hvað þetta varðar er að fólk sé metið að verðleikum í stað þess að alls kyns pólitík ráði því hverjir fái eftirsóknarverð störf. Í dag mun ungt hæfileikaríkt fólk einfaldlega flytja af landi brott ef hæfileikar þess eru virtir að vettugi við stöðuveitingar. Til hvers að vera að standa í einhverju stappi við einhverja smákonga á Íslandi þegar manni bjóðast fínar stöður við góða erlenda spítala, háskóla, stofnanir eða í fremstu fyrirtækjum heims?

Annað sem skiptir máli eru skatta- og velferðarmál. Fram að þessu hefur Ísland staðið vel að vigi að þessu leyti. En nú eru miklir óvissutímar. Stjórnvöld bera nú ábyrgð á rekstri nýrra ríkisbanka með eignir og skuldir upp á um 3.000 ma.kr. Stór hluti af því fólki sem í gegnum tíðina hefur ráðið lögum og lofum í íslensku viðskiptalífi er svo illa statt fjárhagslega að nýju ríkisbankarnir ættu með réttu að gera fjárnám í öllum eignum þess. Ef stjórnvöld láta það hjá leiðast og leyfa innherjunum í fyrirtækjum landsins að skjóta stórum eignum undan kröfum ríkisbankanna með einhverjum hætti þá munum við standa uppi með gríðarlega skuldsettan ríkissjóð eftir nokkur ár.

Nettó skuldir ríkissjóðs eftir 5-10 ár ráðast að stærstum hluta af því hvernig tekst til með rekstur nýju bankanna. Þar þurfa stjórnvöld að sýna virkt eftirlit og skapa mikinn aga. Það verður ekki gert nema með því að fólk sem stendur sig ekki sé látið taka pokann sinn. Því miður hafa stjórnvöld ekki sýnt gott fordæmi hvað þetta varðar þegar kemur að ráðherrum og æðstu embættismönnum. Það er áhyggjuefni svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Ef stjórnvöld standa sig illa í því að hafa eftirlit með rekstri bankanna og mikil afföll verða af eignum þeirra er óhjákvæmilegt að skattar í framtíðinni verði hærri eða velferðarkerfið verra eða hvort tveggja. Ef þannig fer er líklegt að hæfileikafólk á Íslandi hverfi á brott í auknum mæli.

Kannski verður Reykjavík orðin eins og Wichita eða Islip eftir 20 ár. Það er ekki góð tilhugsun.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.