Ég trúði því í fullri alvöru að mín kynslóð mundi aldrei þurfa að upplifa á fullorðinsárum tíma hafta og hamla, hvað þá undir stjórn sjálfstæðisflokksins. Það er því fokið í flest skjól og ljóst að framundan er uppstokkun og breytt framtíðarsýn.
Íslendingar eru hugsanlega ekkert sér á báti, ekki einstakir viðskiptamenn í allri veröldinni, heldur erum við bara eins og aðrir Evrópubúar. Við þurfum því í fullri alvöru að skoða þá möguleika sem okkur standa til boða í samvinnu við aðrar Evrópuþjóðir.
Ákvörðun um að taka þátt í samstarfi þjóða felst ekki í því að setja upp excel skjal og reikna hvort út komi plús eða mínus tala. Ákvörðun um að taka þátt í samstarfi þjóða er ákvörðun um að taka þátt í samfélagi manna, vera hluti af heild sem stendur saman. Ef við stöndum illa þá fáum við hjálp, ef við stöndum vel þá veitum við hjálp. Þetta er eitt af því sem við þurfum að meta á næstu mánuðum, ef við komumst því að Evrópa er ekki slíkt samfélag, þá eigum við ekki að vera með.
Við skuldum þjóðinni og börnum okkar að skoða í fullri alvöru og með opnum hug hvort Evrópa geti boðið okkur upp á betra líf en nú blasir við okkur. Það verður að sjálfsögðu ekki tekin ákvörðun um inngöngu í dag eða á morgun, heldur mun þjóðin á endanum ráða því.
Hugsanlega komumst við upp með að taka bara upp gjaldmiðilinn og fá þannig aðeins það besta, en sleppa því versta. Það er ekki útilokuð niðurstaða í dag frekar en fyrri daginn. Þá ákvörðun getum við hins vegar ekki tekið ef því fylgir áhætta á því að vera litin hornauga í Evrópusamstarfi og þjóðin verði þannig orðin free rider í Evrópu.
Að sjálfsögðu munum við þurfa að færa fórnir við inngöngu í Evrópu; við þurfum að meta hvort eftirgjöf yfir stjórn fiskveiðimála og fullveldis sé ásættanleg. Ef fórnin af því að fara ekki í Evrópu er landsflótti ungs fólks þá er óvíst að við höfum efni á að segja „nei“. Sem betur fer eru flestir Íslendingar stoltir af því að vera Íslendingar og vilja allt fyrir land og þjóð gera, þar á meðal taka þátt í þeirri uppbyggingu sem framundan er. Við verðum að vera viss um að geta gert ungu fólki það kleift.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020