Grundvallarforsenda þess að tveir eða fleiri aðilar stundi viðskipti sín á milli er traust. Trúverðugleiki og traust eru einnig grundvallarforsendur þess að hægt verði að byggja aftur upp íslenskt atvinnulíf fljótt og örugglega á næstu árum. Þau nýju lög sem samþykkt voru á Alþingi í nótt eru afleikur af hálfu stjórnvalda og síst til þess fallin að bæta það litla traust sem alþjóðlegir fjárfestar og fjármagnseigendur hafa á Íslandi.
Lögin sem samþykkt voru veita Seðlabankanum heimild til takmörkunar á gjaldeyrisviðskiptum í allt að tvö ár. Markmið með setningu laganna er í sjálfu sér ágætt sem slíkt; hindra gjaldeyrisflótta frá landinu. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að lögin muni einmitt hafa þveröfug áhrif þegar til lengri tíma er litið. Lögin munu einungis fresta óumflýjanlegum gjaldeyrisflótta frá landinu og það sem verra er, þau munu minnka mjög innstreymi erlends fjármagns og fæla alþjóðlega fjárfesta frá efnilegum og arðbærum fjárfestingum á Íslandi.
Staðan í dag er sú að fjárfestar hafa undanfarnar vikur verið lokaðir inni með peningana sína á Íslandi. Það hefur haft í för með sér að trú þeirra á íslenskum fjárfestingum, hvort heldur sem er í fyrirtækjum eða krónutetrinu, hefur fallið mjög. Í kjölfar þeirra laga sem nú hafa verið sett, mun þessi trú falla enn meira því nú lítur út fyrir að fjármagn þeirra geti átt það á hættu að lokast enn lengur inni. Í slíkri stöðu, er ljóst að fjármagnseigendur munu augljóslega ekki þora að fjárfesta á Íslandi. Þeir munu bíða átekta, taka alla peningana sína út þegar þeir loksins geta og forðast Ísland síðan eins og brennt barn forðast eldinn. Því miður.
Traust erlendra fjármagnseigenda á því að hér sé frjálst flæði fjármagns til og frá landinu er algjörlega nauðsynleg forsenda þess að hér geti uppbygging hafist. Jafnvel þó að það geti verið mjög sársaukafullt tímabundið, þá gerum við engum greiða – hvorki almenningi né fyrirtækjum með því að fresta vandanum. Lykillinn að uppbyggingu felst í því að halda fyrirtækjum með góðan rekstrargrundvöll gangangi og ekki síður að fjárfesta í nýjum vaxtarsprotum til framtíðar. Til að styðja við bæði rótgróin og ný fyrirtæki er erlent fjármagn nauðsynlegt inn í landið.
Vissulega eru ekki til neinar töfralausnir í stöðunni, en það væri mun ráðlegra fyrir stjórnvöld að leita lausna sem byggja á því að búa til hvata fyrir erlendar fjárfestingar á Íslandi – í stað þess að setja á höft og bönn. Traust íslenskra fyrirtækja er að veði.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010