Á þeim umrótatímum sem nú ganga yfir íslenskt samfélag mæðir mikið á fjölmiðlum og fólk horfir til þeirra til að skýra frá því sem gerist. Athyglisvert hefur verið að fylgjast með þeim meðan mesta öldurótið hefur gengið yfir og þá sérstaklega hvernig sumir fjölmiðlamenn hafa tekið að sér að vera sérlegir talsmenn “almennings” eða “þjóðarinnar”.
Æsifréttamennska heillar marga fjölmiðlamenn á Íslandi en það kom glögglega í ljós í aðdraganda hruns bankanna þegar frétta – og blaðamenn kepptust við að elta stjórnmálamenn uppi og flottast þótti auðvitað að öskra á eftir þeim, sitja fyrir þeim eftir fundi eða hreinlega liggja á gluggum. Sá sem lengst gekk þótti mest töff.
Nú í haust, þegar daglegir blaðamannafundir stóðu fjölmiðlum til boða, komst upp um vankunáttu fjölmargra fjölmiðlamanna. Þá þurfti nefnilega að leggja æsifréttamennskuna til hliðar og spyrja efnislegra spurninga og fá svör. Sumir virtust hreinlega ekki vita hvað átti að spyrja um og komu heldur kjánalega út. Sást þá greinilegur munur á íslensku og erlendu fréttamönnunum.
Helsti galli margra íslenskra fjölmiðlamanna er nefnilega þörf þeirra fyrir að koma sjálfum sér á framfæri. Í stað þess að miðla upplýsingum reyna sumir fjölmiðlamenn að koma eigin skoðunum á framfæri og fréttin sjálf fellur í skuggann.
Það sem er kómískt í þessu öllu er hvernig fjölmiðlamenn skýla sér á bakvið klisjur til að koma eigin skoðunum að eða til að hylma yfir illa undirbúna fréttavinnslu. Klassískt er að slá upp setningum á borð við “Þjóðin vill fá að vita…”, “Almenningur spyr sig..”, “Gárungarnir segja..” og svo elsta klisjan í bókinni: “Heyrst hefur..”. Annað hvort er talað fyrir hönd allrar þjóðarinnar eða reynt að hylma yfir lélega undirbúningsvinnu.
Skiptar skoðanir eru um fjölmiðla og sitt sýnist hverjum. Margir eru á þeirri skoðun að fjölmiðlar hafi brugðist eftirlitshlutverki sínu í þeirri kreppu sem nú gengur yfir. Þetta kom t.d. fram á fjölmennum borgarafundi á Nasa nýverið. En telja þá sumir, að fjölmiðlamenn séu að bregðast hlutverki sínu ef þeim tekst ekki “að grilla” stjórmálamenn og aðra viðmælendur?
Að sjálfsögðu eiga fjölmiðlamenn að spyrja hvassra spurninga og ekki leyfa viðmælendum sínum að komast undan því að svara erfiðum spurningum. Hárbeittur fjölmiðlamaður spyr spurninga sem eru til þess fallnar að upplýsa almenning. En ekki, eins og svo algengt er, að grípa sífellt fram í fyrir viðmælanda sínum og leyfa honum aldrei að ljúka svarinu og vera svo ótrúlega sáttur eftir á, enda situr viðmælandinn þá eftir “illa grillaður”. Að mati höfundar hafa fjölmiðlar einmitt brugðist hlutverki sínu þegar þeir falla í slíka gryfju. Málefnaleg og gagnrýnin umræða hlýtur að vera það sem hver fjölmiðlamaður vill standa fyrir.
Samfélagsleg ábyrgð fjölmiðla er einnig mikil og höfundi hugleikin, sem hefur áður fjallað um það á Deiglunni. Fólk treystir því að fjölmiðlar vandi til verka og segi satt og rétt frá. Þannig geta fjölmiðlar samt auðveldlega stjórnað almenningsálitinu. Í þessu sambandi verður ekki hjá því vikist að minnast á atburði þessa árs.
Í vor, þegar mótmæli vörubílstjóra stóðu sem hæst, sauð að lokum upp úr við Rauðavatn eins og frægt er orðið. Fjölmiðlar mættu á staðinn og bein sjónvarpsútsending hófst, sem varð til þess að fjölmargir lögðu leið sína uppeftir til að taka þátt í látunum. Ágætt dæmi um ófagleg vinnubrögð fjölmiðlamanna var þegar tiltekinn fréttamaður hugðist sviðsetja frétt fyrir myndatökumann og fá ungmenni til að kasta eggjum í lögregluna. Sami fréttamaður sá þó sóma sinn í því að segja starfi sínu lausu eftir þetta. Sjá má í hendi sér að mótmælin hefðu líklegast ekki farið svona svakalega úr böndunum ef fjölmiðlar hefðu ekki tekið jafn virkan þátt í þeim.
Án þess að gera lítið úr reiði fólks þessa dagana, sem er skiljanleg og eðlileg, þá verða fjölmiðlar að gera sér grein fyrir múgæsingi sem þeir geta skapað og þannig gert ástand verra en það hefði ef til vill orðið. Nýlegur fréttaflutningur frá uppþotum við lögreglustöðina í Reykjavík sýnir þetta glöggt. Í kvöldfréttum var aðalfréttin sú að lögreglan hefði beitt piparúða á fólk sem samkvæmt fréttinni var alsaklaust, enda bara að brjóta sér leið inn á lögreglustöðina til að sækja mann í haldi lögreglu! Fullkomlega eðlilegt, eða hvað?
Þegar fjölmiðlar leggja blessun sín yfir það að æstur múgur ráðist inn á lögreglustöð, þarf að staldra við og hugsa málin upp á nýtt. Slíkt sendir þau skilaboð út í samfélagið að ekki beri að fylgja lögum og reglum í landinu og að lögreglan sé ávallt vondi kallinn sem berji saklausa borgara. Þó að síðar hafi komið í ljós að svo virðist sem ekki hafi öllum reglum verið fylgt varðandi áðurnefnda handtöku, þá réttlætir það að sjálfsögðu ekki þá hegðun sem stór hópur af fólki sýndi af sér við lögreglustöðina. Allir hljóta að sjá að þróun sem þessi, er ekki af hinu góða.
Að lokum ætlar höfundur að leyfa sér að taka klisjur fjölmiðlamanna upp á sína arma: “Gárungarnir segja að ansi heitt sé orðið á fjölmiðla-grillinu og að tími sé til kominn að lækka hitann. Þjóðin öll heimtar málefnalega, gagnrýna og ábyrga fjölmiðlun þar sem grillveislum er stillt í hóf.”
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021