Þegar stóru bankarnir þrír féllu var það fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að byggja skel utan um innlendu starfsemina til þess að vernda þá starfsemi sem mikilvægust er fyrir Ísland. Það var mjög gott og mikilvægt því þar með var myndaður traustur grundvöllur til að byggja upp á ný. Í framhaldinu er hins vegar engin ástæða, nema síður sé, til þess að ríkið eigi áfram bankana. Á næstu mánuðum þurfa bankarnir að fara í gegnum hvert fyrirtækið á fætur öðru og skoða hvaða fyrirtæki eiga rekstur sem þess virði er að viðhalda og hvaða fyrirtæki þurfa að leggja niður starfsemi og selja eignir. Í þessu verkefni væri sérstaklega slæmt ef einhverjir pólitískir hagsmunir myndu hafa eitthvað um ferlið að segja, eða þá hitt að þeir sem fari með málin í bönkunum gætu, í skjóli þess að ríkið er ekki mjög sterkur eigandi, veitt óeðlilegar fyrirgreiðslur sér tengdum aðilum.
Þegar bankar, eins og önnur fyrirtæki, fara í gjaldþrot safnast kröfuhafar saman og reyna að búa til verðmæti úr því sem eftir er og skipta þeim sín á milli, í rauninni eiga þeir fyrirtækið. Það er því mjög eðlilegt að taka skrefið að kröfuhafar þrotabús eignist það sem heild. Þetta er einnig lausn sem kröfuhafar gömlu íslensku bankanna hafa nefnt sem lausn í gjaldþroti bankanna.
Útfærsla
Þegar er búið að aðgreina íslenska hluta starfsemi frá þeim erlenda í nýju bönkunum. Eftir standa erlendar eignir og alls kyns samningar, ásamt erlendum innlánum sem verið er að vinna í að gera upp. Þegar innlán eru frágengin eru þrotabúin sjálf skuldlítil þegar kröfur kröfuhafanna eru teknar út fyrir sviga. Hægt væri að taka þrotabú gömlu bankanna og breyta þeim í hlutafélög sem kröfuhafarnir myndu eiga í hlutfalli við kröfur sínar. Með því væru búin til óskuldsett móðurfélög sem ættu annars vegar erlent eignasafn og hins vegar nýjan íslenskan banka.
Nýju bankarnir samanstanda af innlendum eignum og innlendum skuldum í formi innlána. Til þess að ofangreind lausn sé möguleg verður að sjá til þess að nýju bankarnir verði traustir og geti staðið af sér ókyrrð næstu mánaða. Stöndugleiki nýju bankanna er væntanlega misjafn, eins og er, og að minnsta kosti einhvern þeirra þarf að endurfjármagna og auka eigið fé. Þetta hyggst ríkið gera, miðað við núverandi áætlun, með því að kaupa íslensku hlutana út úr þrotabúunum, setja aukið fé inn í þá og greiða með ríkisskuldabréfum. Hægt væri að bjóða kröfuhöfunum að endurfjármagna bankana, þeir gætu til dæmis losað erlendu eignirnar og rennt andvirði þeirra inn í nýju bankana eða mögulega rennt eignunum beint inn í bankana þangað til reiðufé fæst fyrir þær. Þá kann að vera að þeir myndu hreinlega kjósa að setja nýtt fjármagn inn til þess að varðveita verðmætin í eignarhlut sínum. Í einhverjum bankanna dygði þetta mögulega ekki og þá þyrfti aðkomu ríkisins á þann hátt sem nú er fyrirhugað.
Kostir
Með því að gera kröfuhafana að eigendum á þennan hátt myndi samstundis fást dreift eignarhald á nýju bönkunum. Meðal hluthafa yrðu margir erlendir fagfjárfestar, bankar, lífeyrissjóðir, fjárfestingasjóðir og fleiri ásamt innlendum kröfuhöfum, íslenskum lífeyrissjóðum til dæmis og ríkinu sjálfu. Þessi dreifða eignaraðild og aðkoma erlendra fagaðila myndi gera kröfu um faglegan rekstur bankanna á viðskiptalegum forsendum án mikillar áhættu á óeðlilegum afskiptum stærstu hluthafa. Meðferð lána til fyrirtækja myndi felast í að hámarka verðmæti rekstursins án ríkisafskipta.
Eins og ríkið stefnir nú að því að endurreisa bankana, er það í raun að taka lán hjá erlendu kröfuhöfunum til að kaupa íslensku bankana og með því að taka þó nokkra áhættu. Verið er að fá óháða sérfræðinga til að meta eignasöfnin en það verður væntanlega afar vandasamt mál og niðurstaðan verður alltaf ákveðin áhættufjárfesting ríkisins. Sérstaklega verður áhættan varasöm fyrir ríkið þegar horft er til þess að afkoma bankanna mun verða mjög tengd afkomu þjóðar og ríkissjóðs og þar með er verið að tvöfalda þá áhættu: Ef þjóðinni gengur illa að vinna sig upp úr kreppunni þá mun bönkunum ganga illa og ríkissjóður tapa á eign sinni í þeim og verða enn verr staddur til að styðja við þjóðina.
Með þeirri aðferð sem hér er lögð til myndi ríkið ekki verða beinn fjárfestir og eigandi að bönkunum og væri minna skuldsett fyrir vikið. Ríkið fyrirhugar nú að setja hátt í 400 milljarða í nýju bankana sem hlýtur að minnka svigrúm á öðrum vígstöðvum í ríkissfjármálunum. Þessi lausn myndi því rýmka eitthvað til í ríkissjóði og einnig koma í veg fyrir mögulega slæma einkavæðingu bankanna þegar fram líða stundir.
Þá myndi þessi lausn í samstarfi við erlenda fjárfesta hjálpa eitthvað til við að rétta ímynd Íslandsaf auk þess sem þarna væri komin bein erlend fjárfesting með mikla hagsmuni fyrir því að Ísland rétti hratt úr kútnum.
Til umhugsunar
Með því að beita ofangreindri aðferð við endurskipulagningu bankanna gæti myndast hvati fyrir nýja eigendur að reyna að taka fjármuni út úr eignarhaldsfélögunum og nýju bönkunum og hætta á ný gjaldþrot nýju bankanna sem íslenska ríkið yrði að grípa. Til þess að koma í veg fyrir það væri hægt að semja um að móðurfélögin myndu bera ábyrgð á nýju bönkunum og að ekki yrðu teknar út eignir úr móðurfélögunum fyrr en mesti brotsjór næstu mánaða væri yfirstaðinn, til dæmis eftir ár eða tvö. Eftir það væri hægt að dreifa hlutabréfum nýju bankanna til eigenda móðurfélaganna eða selja þá út úr þeim og hluthafar móðurfélaganna gætu leyst þau upp, eða viðhaldið eins og þeir vildu.
Það er full ástæða til að skoða þessa lausn, þótt ekki væri nema fyrir einn eða tvo stöndugustu bankana. Það munar um hvern einasta banka sem verður rekinn áfram á eðlilegum viðskiptaforsendum og er hafinn yfir vafa um annað.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011