Sífellt kemur betur og betur í ljós að sá fámenni hópur manna sem var hvað mest áberandi í viðskipta- og bankalífi landsins síðustu ár, átti við fíkn að stríða. Fíkniefnið var ekki áfengi, eiturlyf eða tóbak heldur peningar. Þetta voru fjármagnsfíklar. Þeir þurftu æ stærri og stærri skammt til að fjármagna þau vandræði sem þeir höfðu komið sér í. Líkt og aðrir fíklar þá beittu þeir aðstandendur og fólkið í landinu blekkingum. Þeir stofnuðu leynifélög til að verða sér úti um stærri skammta af fíkniefninu og hylma yfir þá miklu óreiðu sem þeir höfðu þegar stofnað til. Sýndarmennskan var alls ráðandi því engin mátti komast að því að undir glæsilegu yfirborðinu voru ekkert nema loftbólur og eignatengsl sem jafngiltu viðskiptalegu sifjaspelli.
Sá ágæti tónlistarmaður Bubbi Morthens, samdi eitt sinn lag og texta um parið Rómeó og Júlíu sem lifðu í skjóli fíknar í eiturlyf. Með smávægilegum breytingum lýsir textabrot úr því lagi hugsunarhætti fjármagnsfíklana vel (skáletruðu orðin eru breyting pistlahöfundar):
“Draumarnir langir runnu í eitt
dofnir þeir fylgdu með
peningar urðu lífið, með þeim gátu breytt
því sem átti eftir að ske.“
Eða svo héldu menn. Þetta ævintýri gat hins vegar bara endað á einn veg – illa. Og það gerði það líka með þeim afleiðingum sem öllum er kunnugt um. En eins og fíklum er einum lagið, kenndu þeir öðrum um.
Menn eiga vafalítið eftir að deila um það lengi, hugsanlega án endanlegrar niðurstöðu, hvort að aðgerðir ríkisstjórnar og Seðlabanka varðandi þjóðnýtingu Glitnis hafi orsakað það algjöra hrun sem svo varð niðurstaðan. Það er þó skoðun pistlahöfundar, burt séð frá því hvort að þessar aðgerðir voru skynsamlegar, að það stefndi allt á einn veg hjá Glitni, þ.e. í þrot. Miðað við þær upplýsingar sem seinna hafa komið fram voru t.a.m. líklega vel yfir 100 milljarðar króna í útlánum til tengdra aðila hjá bankanum. Forsvarsmenn Glitnis hafa bent á að þessi lán hafi verið lítið hlutfall af heildarútlánum bankans, það er rétt athugasemd en hins vegar skiptir það bara litlu máli.
Miðað við eigið fé í árslok 2007 má leiða að því líkum að um eða yfir 50% af eigin fé bankans var undir í lánum til aðila tengdum bankanum og það svo í félögum sem áttu annað hvort hlutabréf hvert í öðru eða í Glitni sjálfum. Líklega var staðan einfaldlega þannig að nóg væri að FL Group riðaði til falls til að fjórir af fimm stærstu lántakendum bankans færu með (að Exista hugsanlega undanskyldu). FL Group var stærsti lántakandinn og auk þess stærsti hluthafi Glitnis, svo voru þarna Gnúpur sem átti nánast eingöngu hlutabréf í FL og Exista, Fons og huldufélagið Stím sem menn telja að hafi átt bréf í Glitni og FL. Áhættan sem var bundin í lánveitingum til þessara aðila var því gríðarlega mikil og ljóst er mest af þessum peningum myndi tapast færi FL Group á hliðina. Enda varð það raunin.
Kannski varð mönnunum á bak við þessi félög þetta fullljóst. Kannski var það ástæða þess að þeir þurftu samkvæmt heimildum Morgunblaðsins að fara á bakvið reglur um lánveitingar innan bankans. Allar þessar björgunaraðgerðir þeirra báru merki örþrifaráða. Eins og fíklar þurftu þeir sífellt stærri skammt til að fleyta sér í gegnum samtímann og til þess að ná í næsta skammt þurfti að grípa til blekkinga og yfirhylminga. Þetta voru fjármagnsfíklar.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008