Fyrir skömmu sló sonur minn vin sinn Stefán í hausinn með priki sem hann hafði fundið á jörðinni. Þegar ég spurði hann af hverju þetta hefði gerst svaraði hann skýrt og skilmerkilega: „Sko, Stefán stóð of nálægt, prikið var of langt, og hann vissi ekki að ég ætlaði að sveifla því.“ Syni mínum virtist fyrirmunað að skilja að hann hefði sjálfur átt einhvern hlut að máli. Ég lét málið niður falla, meðal annars af því að vininum hafði ekki orðið meint af í þessu óhappi, en sérstaklega þó vegna þess að sonur minn var þriggja ára.
Það er sorglegt að þetta sama viðhorf virðist ríkjandi hjá langflestum þeim sem hafa komið að efnahags- og bankakerfinu á undanförnum árum. Þau vandamál sem nú steðja að virðast, ef marka má yfirlýsingar í fjölmiðlum, öll vera einhverjum öðrum að kenna. Það hefur ekki þótt til siðs á Íslandi í seinni tíð að ganga fram fyrir skjöldu og viðurkenna mistök sín, en sú afneitun sem virðist ríkjandi er ekki vænleg til að styrkja innviði samfélagsins til framtíðar.
Það er næg ábyrgð til fyrir alla. Á meðan Seðlabankinn reyndi að draga úr þenslu með háum stýrivöxtum gróf Íbúðarlánasjóður undan aðhaldinu með síhækkandi íbúðarlánum á lágum vöxtum. Þar sem erfitt var fyrir bankana að selja lán á íslenskum vöxtum prönguðu þeir gjaldeyrislánum inn á neytendur án þess að útskýra þá miklu gengisáhættu sem fylgja slíkum lánum. Fjölmiðlar stóðu sig litlu betur, og birtu raunar oftar en einu sinni kostnaðarútreikninga sem voru misvísandi í hæsta máta og gáfu kolranga mynd af samanburði krónulána og gjaldeyrislána. Opinberir eftirlitsaðilar virðast heldur ekki hafa gert athugasemdir við gríðarlega skuldasöfnun almennings í erlendri mynt. Allra síst virðast íslenskir neytendur hafa séð neitt athugavert við það að skuldsetja sig í botn til að geta keypt sér einbýlishús, lúxusjeppa og fimmtíu tommu flatskjá.
En bankarnir virðast líka hafa verið ötulir við að lána tengdum aðilum fjármuni, jafnvel í því skyni að sömu aðilar gætu keypt stóra hluti í bankanum sjálfum, og með litlum tryggingum. Þegar að kreppti var farið í gríðarlega útþenslu í erlendum innlánum, í tilfelli Landsbankans án þess að stofna dótturfélag eins og eðlilegt hefði verið. Við þetta virðist Fjármálaeftirlitið ekki hafa gert athugasemdir, og Seðlabankinn afnam bindiskyldu af nákvæmlega þessum lánum, svo hægt væri að þenja bækurnar frekar út.
En allt var þetta einhverjum öðrum að kenna.
Það er ekki gagnlegasti starfi í heimi að leita að sökudólgum. Og margt af því sem leiddi til kreppunnar var ekki gert af siðleysi, heldur af vanþekkingu og skilningsleysi. En sú þráhyggja að afneita í einu og öllu eigin ábyrgð grefur enn frekar undan trausti en orðið er, og kemur í veg fyrir að hægt sé að leysa vandann og byggja upp íslenskt þjóðfélag að nýju. Þetta þarf að breytast.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020