Í lok ágústmánaðar sat undirritaður ásamt nokkrum góðum mönnum á fundi um efnahagsmál þar sem rætt var hvaða áhrif þrengingar, sem þá riðu yfir, gætu haft og hvernig væri rétt að bregðast við þeim. Undirritaður velti því upp hvað væri mikilvægast að tryggja við þessar aðstæður og hvað myndi gerast ef allt færi á versta veg. Það var mál manna að mikilvægt væri að neyðaráætlanir Seðlabankans væru yfirfarnar og aðgerðaáætlanir uppfærðar ef ske kynni að einhver bankastofnunin þyrfti á neyðaraðstoð að halda. Það þyrfti, með öðrum orðum, að liggja fyrir „áætlun um það hvernig bæri að bregðast við ef einhver banki kæmi til Seðlabanka Íslands með þau tíðindi að hann gæti ekki staðið í skilum eftir 48 klukkustundir“, eins og það var nákvæmlega orðað á fundinum. Engan okkar grunaði þá að mánuði síðar myndu þessir hlutir gerast með nákvæmlega á þennan hátt. En það sem verra var að þá kom hið skelfilega í ljós: Seðlabankinn virtist ekki hafa neinar neyðaráætlanir á takteinunum, hvorki þegar Glitnir lenti í vandræðum og var einkavæddur né þegar allir bankarnir þrír fóru í þrot.
Engar viðbragðsáætlanir virðast því hafa verið gerðar þrátt fyrir yfir 18 mánaða viðvörunartíma frá fjármálakerfum heimsins og endalausar viðvaranir Seðlabankastjóra (að eigin sögn) – hvorki gamlar né nýjar, góðar eða vondar. Það virðast engar áætlanir hafa verið til og viðbrögð Seðlabankans og stjórnvalda voru ákveðin á einni helgi í báðum tilvikum eins og alkunna er.
Stjórnendur og stjórnir gömlu bankanna eru farnar og þurfa að svara fyrir sín mistök en stjórn Seðlabanka Íslands situr enn og hlýtur að þurfa að svara fyrir það hvernig á því mátti standa að engar neyðaráætlanir voru fyrir hendi. Dugar þá lítið fyrir formann Seðlabankastjórnar að benda á Fjármálaeftirlitið, nema það sé einlæg trú hans að það hafi líka verið á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins að hugsa fyrir viðbrögðum ef bankarnir lentu í vandræðum. Þá væri hann enn vanhæfari í starfi en haldið er nú.
Það er öllum ljóst, ekki bara íslensku þjóðinni heldur öllum þeim sem fylgjast með okkar málum erlendis, að stjórnendur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins njóta hvorki trausts né virðingar fyrir störf sín og verða að víkja. Þjóðarbúið hefur ekki tíma fyrir smjörklípu- og sandkassaleiki stjórnmálamanna eða vangaveltur um sameiningar einstakra stofnanna – nú er tími aðgerða, nú er verk að vinna.
Við tekur mikið endurreisnarstarf og í því mun mikið mæða á Seðlabankanum að endurreisa gjaldeyrismarkað og koma á eðlilegum viðskiptum við útlönd. Það mun mæða á ríkisstjórninni að reisa við efnahagskerfi landsins og koma á stöðugleika og það mun einnig reyna á almenna borgara að vinna sig út úr vandanum því að allir verða að leggja hönd á plóginn. Núverandi ástandi í þjóðfélaginu, sem einkennist af reiði og glundroða, verður ekki breytt nema með því að endurreisa traust almennings (og umheimsins) á innviðum kerfisins.
Það myndi bæta gráu ofan á svart ef til kæmi stjórnarkreppa ofan á allt saman og því er mikilvægt að ríkisstjórn með jafnmikinn þingmeirihluta og núverandi ríkisstjórn vinni áfram að lausn mála. En ríkisstjórnin þarf engu að síður að gera hreint fyrir sínum dyrum og leggja störf sín í dóm kjósenda þegar mesti kúfurinn er af. Ef hún hins vegar þráast við og neitar að beita sér fyrir endurreisn trausts á þessum stofnunum verður hún einnig að víkja.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009