Það eru erfiðar tímar framundan. Uppgangur síðustu 10 ára hefur verið gífurlegur og því er fallið hátt. Sjálfstæðisflokkurinn sem leitt hefur uppganginn síðustu ár verður nú fyrir barðinu á því hvernig fer.
Það er eðlilegt að reiði landans snúi að Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn er og hefur verið valdamesta aflið í stjórn landsins. Það væri óeðlilegt ef reiði og hatur manna beindist ekki að einhverju leyti að þeim sem er í forsvari fyrir okkur, hvort sem sú reiði er að öllu leyti sanngjörn eða ekki.
Sjálfstæðisflokkurinn á sér viðreisnar von enda sú hugsjón sem hann er byggður á jafngild í dag og áður. Frelsi einstaklingsins, fordómalaust samfélag án hafta og óeðlilegra afskipta.
En til þess að fljóta ekki sofandi að feigðarósi þarf hann að hafa eftirfarandi í huga sem grunn að þeirri uppbyggingu sem framundan er: jafnrétti, fagmennsku, menntun, samstöðu, viðurkenningu og ábyrgð.
Jafnrétti: konur verða að koma að framtíðarskipan og uppbyggingu samfélagsins í auknum mæli. Á þetta hefur skort hjá Sjálfstæðisflokknum og fjármálalífinu – sem nú er horfið í þeirri mynd sem við þekktum það.
Fagmennska: skipanir í stjórnir, ráð, nefndir og embætti verða að vera hafnar yfir vafa. Allar slíkar skipanir eiga að vera á faglegum grunni en ekki pólitískum. Pólitískar skipanir grafa undan trúnaði og trausti á kerfinu. Þetta verður strax að hafa í huga að því er varðar til að mynda skipanir í stjórnir nýju bankanna. Að skipa pólitíkusa og embættismenn í stjórnir banka, hvort sem um er að ræða seðlabanka eða aðra ríkisbanka, er ekki faglegt.
Menntun: sem betur fer býr þjóðin að gríðarlegu góðu menntakerfi og það hefur uppgangur síðustu 10 ára gert að veruleika. Hins vegar má búast við því að á næstu árum þurfi að draga úr fjárframlögum til menntakerfisins líkt og allra annarra málaflokka. Menntun landans verður grunnurinn að þeirri framtíð sem við sköpum okkur á næstu árum og áratugum. Hér má ekki slá slöku við. Skólar verða nú að nýta sér þann mannauð sem þeir hafa skapað í uppganginum á undanförnum árum.
Viðurkenning og ábyrgð: Sjálfstæðisflokkurinn og forysta hans verður að sjálfsögðu að axla ábyrgð. Formaður og varaformaður flokksins hafa bæði viðurkennt það að mistök hafi verið gerð. Það er hins vegar langt frá því bitið úr nálinni með það hverju og hverjum er um að kenna, hvað hefði átt að gera öðruvísi og hvað var vel gert. Á meðan við erum í miðri hringiðunni er ekki nokkur leið að leggja endanlegt mat á það hvað fór úrskeiðis, hvenær og hvers vegna. Þetta hefur ríkisstjórnin viðurkennt að verði að skoða. Þeir aðilar sem bera ábyrgð verða á endanum að taka hana á sig, hvort sem það verður gert með því að skipta út embættismönnum eða pólitíkusum í kosningum, eða bæði.
Samstaða: stjórnmálaflokkar, atvinnulífið, verkalýðshreyfingin og aðrir hagsmunaaðilar verða að vera sammála um aðgerðir og lausn á vandanum. Allur kraftur á nú að beinast að því að leysa vandann – það ástand sem við horfum fram á á næsta ári er þess eðlis að tímanum má ekki eyða í þras um fylgi stjórnmálaflokka, sakbendingar um hverjum er að kenna, „I told you so“ – keppnina sem nú tröllríður öllu, að rispa range rover bíla, reiði og hatur. Sú samstaða sem nú virðist vera í stjórn Reykjavíkurborgar, undir forystu Hönnu Birnu, er þar til fyrirmyndar. Stjórn og stjórnarandstaða hafa þar sameinast um aðgerðaráætlun til að leysa þann vanda sem nú steðjar að fjárhag og verkefnum Reykjavíkurborgar líkt og öðrum.
Við skulum hafa eftirfarandi skilaboð Matthíasar Jochumsen í huga næstu mánuði:
Græðum saman mein og mein,
metumst ei við grannann,
fellum saman stein við stein,
styðjum hverjir annan.
Plöntum, vökvum rein við rein,
ræktin skapar framann.
Hvað má höndin ein og ein?
Allir leggi saman!
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020