Verðbólga er mjög há þessa dagana og mikil óvissa er um þróun hennar næstu mánuði. Hún svíður margan skuldarann og er eðlilega ekki vinsæl. Andstæðingum verðtryggingar barst undarleg aðstoð frá þingflokki Vinstri Grænna í byrjun þessarar viku.
Eins og oft áður hefur verið rætt hér eru frysting verðtryggingar eða einhvers konar einhliða afnám hennar blanda af því að vera ógerleg, ólögleg og óskynsamleg. Á síðustu dögum og vikum hefur verið þrýstingur á ríkisstjórnina að gera það engu að síður. Réttilega og á ábyrgan hátt hafnaði ríkisstjórnin þeim hugmyndum með þeim einföldu rökum að helstu lánastofnanir færu á hausinn snarlega ef það yrði gert. Vinstri Grænir ákváðu því á mánudag að leggja til nýja óskynsamlega og stórhættulega leið.
Þrír þingmenn Vinstri Grænna, þau Ögmundur Jónasson, Jón Bjarnason og Katrín Jakobsdóttir lögðu þá fram frumvarp sem stutt og laggott bannar að verðtryggð lán beri hærri vexti en 2%. Orð fá varla lýst hversu vitlaust þetta frumvarp er en hér verður reynt að útlista það helsta.
Ímyndum okkur að þetta frumvarp slysaðist í gegnum þingið og yrði að lögum. Það fyrsta sem myndi gerast er að bankar og lífeyrissjóðir myndu alveg hætta að lána verðtryggt vegna þess að þeir hefðu betri ávöxtun af því að fjárfesta í ríkistryggðum skuldabréfum, og þeir þyrftu sjálfir að borga hærri vexti en þeir fengju borgaða. Þetta væri svo sem ein leið til að útrýma verðtryggingu úr kerfinu ef það er ætlunin með frumvarpinu. Þar með gætu bankar og lífeyrissjóðir aðeins lánað óverðtryggt og þar sem verðbólguáhætta í krónunni er mjög mikil myndu þeir annaðhvort aðeins lána til mjög skamms tíma með tilheyrandi vaxtaóvissu fyrir lántakandann eða leggja á gríðarháa vexti á langtímalán til þess að mæta hinni miklu verðbólguáhættu.
Íbúðalánasjóður yrði þá eini alvöru lánveitandinn á langtímalánum. Sumum finnst það ágætt, gott og vel. Hann myndi lána á 2% verðtryggðum vöxtum. Hins vegar er fjármagnskostnaður sjóðsins mun hærri en það til langs tíma, eða hátt í 4%. Það þýðir að hann myndi tapa um 2% á ári á útlánum sínum. Miðað við núverandi stærð útistandandi húsnæðislána á Íslandi myndi það þýða yfir 20 milljarða króna sem ríkið væri að borga út.
Þar sem þessi lán væru svona hagstæð myndi það borga sig fyrir alla sem mögulega gætu að taka eins mikil lán, meiri en þeir þyrftu til þess að kaupa svo ríkistryggð bréf. Með því væri nefnilega hægt að fá lánað frá ríkinu á 2% og lána því aftur á 4% og láta ríkið borga sér fyrir að vera nógu vitlaust til að samþykkja svona ólög. Þar með væru allir alltaf með eins stór lán útistandandi og mögulegt væri og Íbúðalánasjóður stjórnaði algjörlega útlánum með ákvörðunum sínum um hámarkslán. Hámarkslánin myndu hins vegar verða mjög takmörkuð vegna þess að þetta væri svo kostnaðarsamt fyrir Íbúðalánasjóð.
Þar með værum við komin í ástand þar sem enginn vildi lána neinn pening að ráði nema á gríðarháum óverðtryggðum vöxtum. Vextir eru nefnilega verð á vöru, lánsfé, og raunvextir (vextir á verðtryggðum lánum) sérstaklega. Ef varan er dýr gagnast ekki að setja lög um að hún eigi að vera ódýrari. Þetta hafa sumir reynt, til dæmis land í suðurhluta Afríku sem heitir Simbabve. Ef þetta er gert kaupir enginn inn vörurnar því að hann tapar á að selja þær aftur, og niðurstaðan er tómar hillur. Það borgar vissulega enginn hærra verð fyrir vöruna en lögin segja, en það fær heldur enginn vöruna.
Á nákvæmlega sama hátt mun þak á vexti einfaldlega þýða að fólk fær ekki lánað og þar sem markaðurinn fyrir sparifjáreigendur að ávaxta sitt fé væri mun takmarkaðri myndi sparnaður minnka enn fremur. Sá sem hefur safnað sér sparifé og vill varðveita það mun því ekki fara til samborgara síns og lána honum til að kaupa sér þak yfir höfuðið jafnvel þótt sá sé alveg tilbúinn að borga meira en 2% vexti.
Það má með sanni segja að núverandi stjórnvöld hafi staðið sig verr en maður hefði vonað en ekki er nú framtíðin bjartari í faðmi Vinstri Grænna ef þetta er lýsandi fyrir þær hugmyndir sem þeir hafa.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011