Í fréttum Stöðvar 2 í gær var fjallað í lítt dulbúnum hneykslunartón um þau málefni sem þingmenn á Alþingi hafa talað um á síðustu dögum. Sannast sagna voru þetta heldur fánýt mál ef þau eru skoðuð í samhengi við þau ótrúlega stóru viðfangsefni sem skipta máli í lífi fólks um þessar mundir. Fyrir þá sem hafa minnstu trú á að einstaklingum sé almennt gefið vit til þess að sinna sínum brýnustu þörfum af eigin rammleik og án afskipta ríkisins er þetta ekkert nýtt aðhlátursefni. En nú þegar raunveruleg viðfangsefni blasa við þjóðinni þá verður fleirum augljóst hversu hlægileg sum af áhugamálum stjórnmálamanna verða þegar þeir neyðast til þess að leita uppi vandamálin með stækkunargleri í góðærinu.
Í fréttinni var sagt frá nokkrum málum sem ratað hafa inn á fjalir Þingleikhússins:
„Í október var meðal annars rætt um barnamenningarhúss, endurbætur björgunarskipa, hönnun og stækkun Þorlákshafnar, aðgengi í gömlu íbúðarhúsnæði og skipan frídaga að vori.
Nú í nóvember hefur svo verið rætt um hámarksmagn transfitusýra í matvælum, tilraunir vegna stórskipabryggju í Vestmannaeyjum, skipafriðunarsjóð, afnám tóbakssölu í fríhöfnum og reykherbergi á veitingastöðum.“
Já . Nú loks sjá vonandi fleiri hversu ámátlegt það er þegar stjórnmálamann skipta sér af málum eins og eldamennsku á heimilum, reykingum á vinnustöðum og þar fram eftir götunum. Þessi umfjöllunarefni eru náttúrlega alveg jafnmikil móðgun við sjálfráða og fulltíða fólk í góðæri og í kreppu, en í kreppunni virðist bjánagangurinn ennþá sýnilegri. Það má til dæmis velta fyrir sér hversu margir Íslendingar séu í skapi þessa dagana til að hlusta á eftirfarandi málflutning úr púltinu á Alþingi frá Þuríði Bachmann þingmanni:
„Það skiptir máli hvernig maturinn er eldaður. Það skiptir líka máli hvernig maturinn er framreiddur ef út í það er farið. Þegar við erum að reyna að koma hollum mat ofan í börnin okkar þá er ekki sama hvernig hann er borinn fram. Við þurfum að hafa þetta allt í huga.“
Það er nú einmitt það. Kannski fólk ætti að hafa þetta í huga næst þegar heimtað er að þingmenn þurfi að stimpla sig oftar inn til vinnu og fjargviðrast er yfir því hversu löng frí þeir hafa. Við skulum ekki gleyma því að margt af því sem fólk finnur sér að gera, þegar engin eru raunveruleg verkefnin, er fánýtt – og jafnvel skaðlegt. Þetta gildir ekki síður um alþingismenn en okkur hin, nema síður sé.
Ef að kreppan færir okkur eitthvað gott þá gæti verið að það væri að fólk átti sig á því hversu lítil verðmæti felast í því að láta þingmenn fjalla um mál sem venjulegu fólki er fullfært að taka persónulegar ákvarðanir um.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021