Síbrotamenn hafa verið til umfjöllunar upp á síðkastið. Þolinmæði flestra er á þrotum og aðgerða er krafist hið snarasta. Finna verður lausn á vandanum því að núverandi ástand er ekki líðandi. Dómskerfið verður að geta mætt því með viðeigandi úrræðum – annað er óásættanlegt.
Allmörg ríki í Bandaríkjunum hafa tekið upp svokölluð þriggja sakfellinga lög (e. three strikes law) sem hafa það að markmiði að fækka afbrotum með því að fækka síbrotamönnum á götunum. Kalifornía var eitt af þeim fyrstu ríkjum til að taka þau upp. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og hefur afbrotum fækkað verulega síðan. Góð samstaða hefur verið um þetta mál bæði milli stóru flokkana tveggja þar í landi sem og meðal almennings.
Lögin ganga út á það að þegar glæpamaður brýtur af sér í annað sinn á hann von á tvöfalt lengri fangelsisdóm en annars. Þegar hann fremur þriðja glæpinn er refsingin skilyrðislaust frá 25 árum til lífstíðarfangelsisvistar. Fyrir ófyrirgefanlega glæpi eins og kynferðismisnotkun á börnum og nauðganir er hins vegar reglan önnur – einn glæpur og tekinn úr umferð. Kynferðisafbrotamenn í Kaliforníu eiga því von á 25 ára til lífstíðarfangelsisdómi. Það sem er einna athyglisverðast er að glæpamenn eru dæmdir út frá brotasögu þeirra en ekki bara síðasta broti.
Hér á landi er vegið og metið í hverju tilfelli bakgrunnur glæpamannsins. Heimild er í hegningarlögum til að tvöfalda refsingu fyrir ítrekuð brot. Engin skýr stefna eða viðmið í málum síbrotamanna virðist hins vegar vera til hjá dómsvaldinu hér á landi. Afplánunin er síðan oft á tíðum stytt af framkvæmdarvaldinu, Fangelsismálastofnun.
Vakin hefur verið athygli á því að ósangjarnt sé að dæma glæpamenn til langrar fangelsisvistar fyrir brot sem almennt hafa í för með sér styttri refsingu. Á móti er mikilvægt að dæma með tilliti til alls brotaferilsins en ekki einungis síðasta brots. Einnig má velta fyrir sér hvort rétt sé að miða við þrjú brot. Langflest okkar ganga hins vegar í gegnum lífið án þess að fremja neinn glæp hvað þá alvarlegan og ekki einn eða tvo eða hvað þá þrjá.
Gagnrýni hefur einkum beinst að kostnaði við kerfið því óhjákvæmilega eykst hann. Á móti kemur sparnaður sem felst í því að vegna færri glæpa þarf að eltast við færri glæpamenn og dómsmálum fækkar. Aðalatriðið er þó það að færri verða fyrir barðinu á glæpamönnum.
Við viljum lifa í öruggu samfélagi og eigum rétt á því. Því er mikilvægt að meta gaumgæfilega þá kosti sem við höfum til að gera samfélagið öruggara. Að hafa síbrotamenn í fangelsum er einn af þeim.
- Einkaframtakið er umhverfisvænna - 10. maí 2007
- Framlagið þitt - 6. desember 2005
- Skotnar snyrtivörur - 6. október 2005