Barack Obama skráði nafn sitt í sögubækurnar þegar hann vann stórsigur á John McCain
í forsetakosningunum vestanhafs fyrir tæpum tveimur vikum. Miklar vonir eru bundnar
við Obama og ljóst er að hann á mikið verk fyrir höndum næstu fjögur árin.
Sigur Barack Obama kom fáum á óvart. Þrátt fyrir að Repúblikanaflokkurinn hafi komið með toppframbjóðanda í John McCain þá var almenningur kominn með nóg. Menn vildu sjá breytingar og almenningur trúði því að Obama væri maðurinn til þess að koma þeim breytingum á. Obama lagði líka mikið upp úr því í kosningabaráttu sinni að boða breytingar í stefnu og stjórnarháttum í Washington. Loforðin voru líka stór og mikil sem var grundvöllurinn að því að Demókratar unnu sigur í kosningunum.
Bætt heilbrigðisþjónusta, framsækin orkustefna, betra menntakerfi, ábyrg utanríkisstefna, breytt skattakerfi, enda Írakstríðið og síðast en ekki síst traust efnahagsstjórnun voru nokkur af þeim fjölmörgu loforðum sem Obama kom með í kosningabaráttunni sinni. Stóra spurningin er því sú hvort að Obama geti staðið við öll þessi loforð.
Ljóst er að fyrstu mánuðirnir í starfi verða mjög erfiðir fyrir Obama. Bandaríkin eins og aðrar þjóðir heimsins sjá fram á eina mestu heimskreppu allra tíma. Kreppu sem allar þjóðir heimsins verða að vinna saman til þess að leysa. Það mun því verða forgangsverkefni hjá Obama og hefur hann nú strax skipað vinnuhóp sem mun leiða stefnu nýrrar Bandaríkjastjórnar í þeim málum. Einnig segir hann ætla að eiga náið samstarf með John McCain og Repúblikanaflokknum í að leysa þessa krísu og koma stöðugleika aftur á í efnahagi landsins.
En þrátt fyrir að efnahagsástandið verði að forgangsverkefni þá má Obama ekki gleyma á hvaða forsendum hann var kosinn. Kosinn til þess að breyta. Þótt að það muni taka mun meira en fjögur ár til þess að ná breytingum í sumum málaflokkum þá þarf einhverstaðar að byrja. Obama getur heldur ekki hugsað sér betri stöðu til þess að byrja á breytingaferli sínu. Demókrataflokkurinn er með meirihluta í fulltrúar- og öldungadeild Bandaríkjanna sem standa þétt á bak við hann. Flest þjóðríki heimsins eru einnig mjög viljug til þess að hefja samstarf við Obama og trúa því að með honum muni utanríkisstefna Bandaríkjanna breytast að einhverju leyti. Því munu næstu mánuðir og ár verða mjög áhugaverðir í bandarískum stjórnmálum og vonandi verður sú staða uppi að fjórum árum liðnum að fylgismenn Obama geti verið stoltir að hafa tryggt þessum frambærilega stjórnmálamanni valdamesta embætti heimsins.
- Vanhugsuð friðun - 10. janúar 2012
- Obama náði Osama - 5. maí 2011
- Stjórnlagaþingsklúður - 29. nóvember 2010