Nú er komið að skuldadögum hjá mörgum. Þeir sem keyptu skuldabréf gömlu bankanna þriggja í hagnaðarvon eru meðal þeirra sem þurfa að bera kostnað af sinni áhættusækni.
Miðlun peningamálastefnu Seðlabanka Íslands er í gegnum stýrivexti hans en þeir vextir eru vextir á veðlánum bankans til annarra banka. Veðlán fara þannig fram að banki fær lán frá Seðlabankanum og lætur á móti veðhæf skuldabréf til Seðlabankans sem tryggingu fyrir láninu. Þegar bankinn endurgreiðir lánið fær hann bréfin aftur afhent. Seðlabankinn skilgreinir hvaða skuldabréf hann telur veðhæf hverju sinni. Í aðalatriðum hafa ríkistryggð bréf og bréf stóru bankanna þriggja talist veðhæf, auk sértryggðra skuldabréfa.
Ríkisskuldabréf og önnur ríkistryggð bréf hafa verið uppistaðan í þessum viðskiptum en síðustu misseri, þegar lausafjárskortur var farinn að láta á sér kræla, færðist það í vöxt að bréf stóru bankanna þriggja væru lögð sem trygging fyrir lánum Seðlabankans. Það gerðist í raun þannig að einn stóru bankanna gaf út skuldabréf, annar banki keypti bréfið, fékk lán hjá Seðlabankanum og lagði bréfið að veði. Til þess að milligöngubankinn væri tilbúinn til verksins þurfti hann að fá hærri vexti á skuldabréfinu heldur en hann borgaði í Seðlabankanum. Þannig að í raun og veru var milligöngubankinn að fá lán hjá Seðlabankanum og lána áfram til stóra bankans með vaxtamun. Hann var í raun að þéna vaxtamuninn gegn því að bera áhættu á því að stóri bankinn færi í þrot.
Nú er svo komið að skuldabréf stóru bankanna eru svo til verðlaus. Seðlabankinn hefur því lánað umtalsverðar fjárhæðir út á bréf sem nú eru verðlaus og hefur hann kallað eftir frekari tryggingum frá þeim bönkum sem enn eru starfandi og höfðu fengið lán út á þessi skuldabréf. Flestir hafa brugðist við þessum veðköllum og afhent frekari veð. Sparisjóðabankinn, eða Icebank, hafði hins vegar fengið lánaðar slíkar fjárhæðir að hann stóð ekki undir því að afhenda frekari tryggingar og fékk til þess frest sem rennur senn út. Það virðist því ljóst að eignir bankans stand ekki undir skuldum og þurfa stjórnvöld að ákveða hvernig þeir skuli leysa úr því máli.
Rök hafa komið fram um að verðmæti felist í því að starfrækja bankann áfram og keyra hann ekki í þrot, til dæmis hér á Deiglunni. Pistlahöfundur treystir sér ekki til þess að meta það en það eru stjórnvöld væntanlega að gera þessa dagana. Miðað við þær upphæðir sem nefndar hafa verið í fjölmiðlum virðist hins vegar nokku ljóst að bankinn skuldar Seðlabanka mun hærri fjárhæðir en hann stendur undir og er því í raun gjaldþrota. Vel má vera að Seðlabanki og stjórnvöld komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum ríkis og skattborgara sé best borgið í að starfrækja bankann frekar en að fara með hann í gjaldþrotaskipti. Það er hins vegar alveg ljóst að hluthafar bankans hugðust hagnast á þessum áhættusömu viðskiptum sem síðan fóru í vaskinn og þeir eiga að bera tap af því. Í besta falli ætti ríkið því að taka yfir eignarhald á öllu hlutafé bankans en í versta falli keyra hann í gjaldþrot. Sama má segja um aðra aðila sem hafa stundað þessi viðskipti, þeir tóku áhættu til að hagnast og eiga að bera tap af þeirri áhættu. Einnig er ljóst að hversu mikið sem bankarnir geta endurgreitt mun tap Seðlabankans verða umtalsvert vegna þessara viðskipta.
Það er innileg von pistlahöfundar að aðrir bankar muni þola tapið sem þeir verða fyrir út af þessum viðskiptum og standi af sér illviðrið. Nú, þegar mikill fjöldi landsmanna er að tapa stórfé á ýmsum vígstöðum og margir stefna í að missa íbúðir sínar, er hins vegar ómögulegt að réttlæta að ríkið beri tap vegna áhættusækni banka en ætlast til þess að almenningur borgi sínar skuldir.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011