Ýmsir vilja horfa til þeirrar fortíðar áður en markaðslögmálin tóku völdin á Íslandi. Aðrir halda því fram að allir aðrir en sjálfstæðismenn eigi að stjórna og láta frekari tillögur að lausnum liggja milli hluta. Þá vill þáttastjórnandi Íslands, Egill Helgason, kosningar þar sem eingöngu nýir flokkar verði í boði og enn aðrir sjá fyrir sér hið fullkomna mjúka land þar sem kvenleg gildi ráða ríkjum. Rétt er að skoða þessar leiðir hverja um sig og kanna hversu vænlegar þær eru.
Gamli tíminn
Ákveðinn hópur manna telur aðkomu ríkisins að öllum stigum þjóðfélagsins vera nauðsynlega til að tryggja öryggi íslensks þjóðfélags. Þeir telja kapítalismann látinn og því sé einsýnt að fólk vilji hverfa aftur til tíma hafta og ríkisvæðingar. Ungt fólk er skiljanlega órólegt yfir því að þessi sjónarmið verði ofan á enda vart ákjósanlegt að búa börnum sínum framtíð við slíkar aðstæður. Framþróun yrði lítil í slíku samfélagi þar sem frumkvæði og drifkraftur einstaklingsins yrði borinn ofurliði. Gamli tíminn getur kennt okkur margt og nauðsynlegt er að horfa til þeirra grunngilda sem hafa lengst af lýðveldistímanum verið ríkjandi í íslensku samfélagi. Við skulum læra af reynslunni án þess þó að hefta einstaklinginn í því að koma sínum hugmyndum í verk.
Ekki Sjálfstæðismenn
Enn annar hópur manna telur nauðsynlegt að Sjálfstæðisflokkurinn komi hvergi nærri því að byggja upp Nýja Ísland þar sem hann sé holdgerfingur alls þess sem úrskeiðis fór. Er þetta sanngjörn fullyrðing? Er þetta kannski tímapunktur þar sem andstæðingar flokksins geta leyft sér að segja hvað sem er og halda að nú sé runnin upp sú stund að nú sé komið að því að draumurinn rætist um að ganga loksins af helv. íhaldinu dauðu? En fyrir hvað stendur Sjálfstæðisflokkurinn? Grunngildi Sjálfstæðisflokksins byggja á því að samfélagið sé þannig gert að einstaklingurinn hafi frelsi til athafna. Sjálfstæðismenn hafa óbilandi trú á frelsi einstaklingsins samfara ábyrgð á eigin gerðum. Þeir hafa til að bera umburðarlyndi gagnvart mismunandi lífsviðhorfum og lífsháttum. Kjörorð flokksins “stétt með stétt” felur í sér það inntak að ólíkir þjóðfélagshópar hafa sameiginlega hagsmuni. Stétt vinni með stétt að því sameiginlega markmiði að gera samfélagið enn betra. Með því að auka það sem til skiptana er verði sameiginlegir hagsmunir allra, sama hvaða stétt þeir tilheyra, best tryggðir, ekki síst þeirra sem eru hjálpar þurfi. Eru þessi grunngildi kannski einmitt það sem við viljum halda í heiðri áfram þrátt fyrir þá efnahagslægð sem dynur á landi okkar? Vissulega hafa mistök verið gerð og Sjálfstæðisflokkurinn þarf eins og aðrir að horfast í augu við fortíðina og fara yfir það hvað fór úrskeiðis. Innviðir Sjálfstæðisflokksins eru það sterkir að flokkurinn mun koma heill frá því uppgjöri. Aðrir stjórnmálaflokkar þurfa að gera slíkt hið sama. Lykilatriðið í því ferli öllu er að ungliðahreyfingarnar láti í sér heyra og taki virkan þátt í að móta þá framtíð sem við ætlum að skapa börnum okkar.
Nýja Ísland = Ný stjórnmálaöfl
Egill Helgason hefur lýst þeirri skoðun sinni að í næstu kosningum eigi enginn af núverandi stjórnmálaflokkum að vera til. Reyndar vísar hann í framhaldinu til þess að slíkt hafi verið gert í öðrum löndum og ekki tekist vel. Þetta gengur einhvernvegin ekki upp. Þorri fólks hendir ekki frá sér hugsjónum sínum. Hver einstaklingur hefur einhver grunngildi sem hann vill byggja framtíð sína og barna sinna á. Ef einstaklingur starfar í stjórnmálum þá finnur hann samhljóm með grunngildum einhvers stjórnmálaflokks og vinnur innan hans að framgangi sinna hugmynda. Ég get ekki séð að neitt hafi breyst sem kollvarpar þessu fyrirkomulagi. Það væri til að toppa allt lýðskrumið sem nú er í gangi að Nýja Samfylkingin og Nýja Framsókn yrðu til og byðu fram í næstu kosningum. Hvítþvegin af þeim mistökum sem gerð hafa verið í gegnum árin.
Kvenleg gildi
Það er enginn heitari í dag en “hagsýna húsmóðirin” sem kann ráð undir rifi hverju í kreppunni. Félagi minn á Fésbókinni kvartaði við mig yfir því að skilgreiningin á því hver hin sanna íslenska hagsýna húsmóðir er, væri ekki nógu skýr og ekki væri ljóst hvort karlmenn gætu fallið undir þá skilgreiningu. Skilgreining mín á hugtakinu er eftirfarandi: Einstaklingur sem tekur slátur, tekur út peninga til að versla fyrir og notar því ekki kort, leitar hagstæðustu tilboða við innkaup, á saumavél sem er notuð, tekur ekki óþarfa áhættu, eyðir ekki í óþarfa, er nægjusamur og sýnir ráðdeild í hverri ákvörðun er varðar hag heimilisins. Þetta er hin hagsýna húsmóðir og allt eru þetta eiginleikar sem stjórnendur ættu að hafa í huga í rekstri. Það er að nýta þau tækifæri sem í umhverfinu felast til að skapa hagkvæma rekstrareiningu. Því er rétt að hafa sjónarmið hagsýnu húsmóðurinnar í huga þegar horft er til framtíðar. En að mínu viti þarf hagsýn húsmóðir ekki endilega að vera kona.
En hver er þá niðurstaðan? Hvert ætlum við?
(Grein þessi er II. hluti greinaflokks sem birtist á vefritinu Deiglunni)
- Framtíðin sem við skuldum - 30. nóvember 2020
- Alþingi í gíslingu - 11. júlí 2009
- Tækifæri til að efna fögur fyrirheit - 16. júní 2009