Líf í sósíalísku hagkerfi II

„Kæru félagar, þetta er útvarp Búkarest, klukkan er 6:30. Nú er félagi Ceausescu að fara á fætur, og þá förum við líka á fætur, kæru félagar!“ Korteri síðar heyrðist aftur í útvarpinu: „Kæru félagar, nú er félagi Ceausescu að gera armbeygjur og þá ætlum við líka að gera armbeygjur, EINN OG TVEIR OG EINN OG TVEIR…“ Korteri síðar mátti svo heyra: „Kæru félagar, klukkan er 7:00. Nu er félagi Ceausescu að borða morgunmat, og þá ætlum við að heyra smá tónlist…“

„Kæru félagar, þetta er útvarp Búkarest, klukkan er 6:30. Nú er félagi Ceausescu að fara á fætur, og þá förum við líka á fætur, kæru félagar!“ Korteri síðar heyrðist aftur í útvarpinu: „Kæru félagar, nú er félagi Ceausescu að gera armbeygjur og þá ætlum við líka að gera armbeygjur, EINN OG TVEIR OG EINN OG TVEIR…“ Korteri síðar mátti svo heyra: „Kæru félagar, klukkan er 7:00. Nu er félagi Ceausescu að borða morgunmat, og þá ætlum við að heyra smá tónlist…“

– rúmenskur brandari –

Þrátt fyrir hugmyndir Vesturlandabúa um annað voru hungursneyðir í raun ekki ýkja algengar í sósíalískum hagkerfum og ekki er ástæða að ætla að það muni verða raunin á Alþýðuveldinu Íslandi. Á fyrstu árum Sovétríkjanna og Alþýðulýðveldisins Kína lentu menn oft vissulega oft í því en þá undantekningarlaust í kjölfar tilrauna til allsherjar-ríkismatvælaframleiðslu. Ólíklegt er að íslenska ríkið muni taka að séð að framleiða mat í miklum mæli. Atvinnugreinar eru ekki þjóðnýttar nema að þeir sem þær stundi hafi á sér okurstimpil, sem íslenskir bændur og smábátasjómenn hafa ekki. Því munu þessar stéttir auðveldlega geta séð Íslendingum fyrir nægum mat, þótt dreifingin á honum verði sósíalísk og klúðursleg.

Bensín, bílar og samgöngur

Dæmi um atvinnugrein sem nýtur EKKI vinsælda meðal almennings er olíudreifing. Líkleg atburðarrás að þjóðnýtingu hennar er eftirfarandi: Framan af í kreppu munu olíufélögin njóta talsverðs stuðnings af hálfu hins opinbera, t.d. í formi gjaldeyrisfyrirgreiðslu. Fljótlega mun koma í ljós að hagnaður þeirra verður engu að síður umtalsverður og mun það mælast afar illa fyrir. Í kjölfarið mun orðrómur um samráð eða fréttir af háum laun forstjóranna vera kveikjan að því að ríkið tekur yfir reksturinn.

Fyrst eftir yfirtökuna mun ríkið lækka bensínverð til að styrkja málstað sinn og mun bensíneyðsla aukast í kjölfarið. Þegar við bætist reynsluleysi hinna nýju eigenda mun vera vart við bensínskort á einstaka stöðvum. Þá byrjar fólk að hamstra bensín sem mun auðvitað margfalda vandann en ríkið mun ekki þora að hækka verðið því verður gripið til annarra ráða.

Það eru því miklar líkur á að bensín verður fyrsta varan sem skömmtuð verður þegar sósíalískt hagkerfi hefur innreið sína inn í Ísland. Þó að skömmtunarmiðar séu ömurleg lausn frá hagfræðilegu tilliti eru þeir þægilegri fyrir ráðamenn en miklar verðhækkanir því þannig mun Ríkið geta sagt að það sé að verja hinn almenna neytanda gegn hamstri örfárra og milda reiði almennings.

Það munu því ekki vera ýkja góðir tímar til að reka bíl og mælt er með að menn leiti sér annarra leiða til að komast á milli staða. Góðu fréttirnar eru þær að öll sósíalísk ríki reka almenningsamgöngukerfi sem eru vissulega hrikalega óskilvirk en um leið mjög ódýr. Rútuferðin norður til Akureyrar mun að öllum líkindum kosta þúsundkall, pakkað verður í allar ferðir, lyktin verður vond og rútan alltaf sein.

Þó er afar mikilvægt að SELJA EKKI bílinn þó menn hætti að nota hann. Hverjum bíl og hverri kennitölu munu nefnilega fylgja bensínréttindi sem hægt er að nota til að kaupa bensín og selja sér ríkari mönnum fyrir margfalt verð í evrum. Þó svo að reynt verður að stoppa þessi viðskipti mun það ganga illa og ungt fólk getur því litið á bensínskömmtunarmiðana sem mánaðarlegan námsstyrk frá ríkinu.

Matur

Eins og áður sagði, er ekki beinlínis ástæða til að óttast hungursneyð, svo lengi sem bændur og smábátasjómenn verða sæmilega sjálfstæðir. Hins vegar mun dreifing á matvöru lenda í höndum hins opinbera, sem mun stýra vöruframboði miðað við þörf en ekki eftirspurn. Þetta mun gera það að verkum að erfitt verður að fá saltkjöt í kringum sprengidag, pylsur í kringum verslunarmannihelgi og hangikjöt um jólin. Tímabundinn skortur leiðir af sér hamstur sem leiðir af sér varanlegan skort sem leiðir af sér skömmtunarmiða.

Við munum því þurfa að breyta aðeins út frá hefðbundnu neyslumynstri okkar. Til dæmis gæti verið sniðugt að taka upp kaþólska trú og sleppa þannig sjálfkrafa að borða kjöt á aðfangadag og heilan mánuð fyrir páskadag. Önnur leið er að kynnast bónda eða sjómanni og útvega sér kjöt og fisk milliliðalaust. Til þess mun þó þurfa gjaldeyri eða bensín. Mikilvægt að bjóða vinum og fjölskyldu reglulega í mat ef þessi leið er farin, annars er hætta á að þeir fyllist öfund og reyni að spilla sambandi þínu við „birgjann“ og taka yfir viðskiptin, en fólk gerir það ekki ef það nýtur sjálf einhvers góðs af þeim.

Að lokum munu allir þurfa að stunda matvælaframleiðslu að einhverju leyti, t.d. rækta kartöflur og rófur og baka sitt eigið brauð. Ekkert af þessu verður ekki gert til að spara peninga, því allir munu eiga nóg af þeim, heldur til að tryggja sér aðgang að þessum vörum og sleppa því að þurfa bíða í löngum biðröðum eftir þeim. Helsta hindrun við að útvega sér vörur á sósíalískum markaði eru nefnilega ekki peningar heldur skortur á vörum, skortur á tíma og skortur á réttum samböndum. Um það verður betur fjallað í seinasta pistlinum í þessari ritröð.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.