Margir nefna aðild að Evrópusambandinu sem lausn, aðrir vilja horfa til fortíðar áður en markaðslögmálin tóku völdin á Íslandi, enn aðrir halda því fram að allir aðrir en sjálfstæðismenn eigi að stjórna. Þá vill þáttastjórnandi Íslands, Egill Helgason, kosningar þar sem eingöngu nýir flokkar verði í boði og enn aðrir sjá fyrir sér hið fullkomna mjúka land þar sem kvennleg gildi ráða ríkjum.
Evrópusambandið
Þeir aðilar sem lengi hafa talað fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið eru háværir þessa dagana. Staða krónunnar er veik og því eðlilegt að fólk velti fyrir sér hvaða stefnu eigi að taka varðandi framtíð gjaldmiðilsins. En staðreyndin er sú að til að geta gengið í Evrópusambandið þurfum við að uppfylla Maastricht-skilyrðin sem Árni Helgason fjallaði um á Deiglunni nýlega. Ég tel flesta sammála því að stefnt skuli að því að uppfylla skilyrðin en það tekur tíma að leiða íslenskt efnahagslíf að þeim punkti frá deginum í dag.
Gríðarlegur stuðningur mælist í skoðanakönnunum við Evrópusambandsaðild. Getur verið að niðurstaða þeirra litist af einhliða málflutningi og því að ekki er bent á aðrar lausnir? Er fólk búið að gleyma því að gjaldmiðilinn er eitt og aðild að Evrópusambandinu allt annað mál? Aðild fylgja kostir og gallar. Afhverju er ekki lengur rætt um gallana?
Sjávarútvegsfyrirtækin eru stöndugustu fyrirtæki Íslands í dag. Er hagsmunum þeirra borgið innan Evrópusambandsins? Þurfum við ekki að huga að útflutningfyrirtækjunum okkar?
Þá er það spurning hvort við eigum yfir höfuð heima í Evrópusambandinu sem stofnað var til að sporna gegn ófriði í Evrópu eins og Páll Heimisson fjallaði um á Deiglunni nýverið. Okkar stríð hafa aðallega verið við Breta og þeir eru öflugt afl í sambandinu. Ég get enganvegin fellt mig við þá hugmynd að gefa eftir sjálfstæði þjóðarinnar með inngöngu í Evrópusambandið. Að mínu viti felur innganga í Evrópusambandið í sér algera uppgjöf þess að vera sjálfstæð þjóð. Ég fellst hinsvegar á að það sé þörf að á ræða málið enn á ný ofan í kjölinn en mig óar við því að landinu okkar verði stjórnað af skriffinnum Brusselveldisins. Frakkar, Þjóðverjar og Bretar sem þar eru allsráðandi hafa ekki verið að sýna okkar sjónarmiðum neinn sérstakan skilning upp á síðkastið.
Er svo komið að landsmönnum þyki rétt að parkera hinu unga merki lýðveldisins undir Evrópufána og gefast upp á sjálfstæðinu? Eru landsmenn í alvöru á þeirri skoðun að stofnun Íslenska lýðveldisins hafi verið tilraun sem misheppnaðist?
Að mínu viti er aðild að Evrópusambandinu er ekki nein töfralausn sem bjargað getur okkur í dag. Slík töfralausn er ekki til heldur þurfum við öll að leggjast á eitt við að vinna okkur út úr ástandinu.
En ef ekki Evrópusambandið hvað þá?
(Grein þessi er I. hluti greinaflokks sem birtist á vefritinnu Deiglunni næstu daga)
- Framtíðin sem við skuldum - 30. nóvember 2020
- Alþingi í gíslingu - 11. júlí 2009
- Tækifæri til að efna fögur fyrirheit - 16. júní 2009