Á forsíðu sunnudagsútgáfu Fréttablaðsins er mynd af mótmælendum fyrir utan Ráðherrabústaðinn. Á myndinni sést einn mótmælendanna halda á fána Landsbankans og búið er að kveikja í honum. Fólkið í kring hrópaði „brennum bankana“.
Um þetta mál bloggaði ég í gær. Einn þeirra sem hélt ræðu á þessum mótmælum skrifaði athugasemd við færslu mína:
„Mér er kunnugt um að ætlun þeirra sem stóðu fyrir göngunni var að engin spjöld væru á lofti, engin nöfn hrópuð né úthrópuð og engir gerningar á borð við fánabrunann yrðu á dagskrá. Ég veit ekki hvaða einstaklingar það voru sem létu skoðanir sínar í ljós á þennan hátt í trássi við það sem lagt var upp með.“
Skipuleggjendur mótmælafunda hafa gaman af því að safna saman fólki og æsa það upp með ræðuhöldum og hrópum. En öllu frelsi fylgir ábyrgð og þar með talið tjáningarfrelsi. Spurning hvort þessari fánabrennu verði mótmælt með fundi á Austurvelli? Margir hafa nú áhyggjur af ímynd Íslands erlendis og er alveg öruggt að þetta er ekki til að bæta stöðuna.
Fleiri þúsund manns hafa unnið við uppbyggingu banka hér á landi í fjölda ára og flestir þeirra starfa þar enn. Það er alveg ljóst að þeir mótmælendur sem stóðu fyrir fánabrennunni vissu að slíkar fréttir færu beint á aðal lista alþjóðlegra fjölmiðla. Mótmælandinn segir að bankafólkið hafi gengið of langt, en nú hefur mótmælandinn sjálfur gengið of langt! Og hvernig komst mótmælandinn yfir svona fána? Geri ekki ráð fyrir því að bankinn hafi afhent honum slíkan grip.
Næstu skref þjóðarinnar eiga að felast í uppbyggingu og samstöðu. Þar eiga mótmæli sem þessi ekki heima. Bankarnir veita mörg þúsund manns atvinnu og vonast ég til að svo verði áfram.
- Nafnlausi kröfuhafinn - 26. júní 2009
- Hello Europe! - 16. maí 2009
- Fjárframlög til stjórnmálaflokka - 11. apríl 2009