Það eru margir vankaðir eftir atburði síðustu vikna. Þótt útlitið sé tvísýnt þá er það ekki svo að það sé eintómt svartnætti framundan. Því ber að halda til haga.
Gengi krónunnar hefur mikil áhrif á alla landsmenn. Það er óumdeilt að raungengi krónunnar er langt undir langtímajafnvægi. Raungengi er öðru fremur mælikvarði á samkeppnishæfni þjóða. Þetta þýðir að ísland er ofursamkeppnishæft um þessar mundir: Við getum framleitt nánast hvað sem er og verið samkeppnishæf við umheiminn.
Með nokkurri einföldun er auðvitað grátbroslegt að um þessar mundir eru íslensk fyrirtæki samkeppnishæf við Kólombíu í framleiðslu á kaffibaunum, samkeppnishæf við Tævana í framleiðslu á vöfflujárnum og að íslensk fyrirtæki eru samkeppnishæf við Japana í framleiðslu hrísgrjóna.
Þannig er það nú samt vegna lágs raungengis krónunnar.
Góðu fréttirnar eru auðvitað þær að raungengið styrkist annað hvort í gegnum nafngengi krónunnar eða með verðbólgu. Til langs tíma eru verðbólguhorfur lágar ef tekst að stemma stigu við víxlverkun launa og verðbólgu til skamms tíma með skynsömum kjarasamningum og ef greiðslumiðlun og gjaldeyrismarkaður kemst í viðunandi horf. Það þýðir að raungengi krónunnar mun styrkjast í gegnum nafngengi, sem þýðir að í fyllingu tímans munum við fá fleiri evrur og dollara fyrir krónurnar okkar. Aðalatriðið er að erlendu lánin ættu að lækka í íslenskum krónum til lengri tíma litið. Það er jákvætt. Að sama skapi er betra að raungengið styrkist í gegnum nafngengi en verðbólgu því slík raungengisstyrking hefur einnig minni áhrif á verðtryggðar skuldbindingar heimilanna.
—
Stjórnmálamenn verða að standast þá freistingu að lofa að ábyrgjast alla hagsmuni á viðsjárverðum tímum. Nú þegar hafa þeir lýst því yfir að ríkið muni ganga í ábyrgðir fyrir alls konar fjármálaafurðir í eigu einstaklinga og lífeyrissjóða – sem vel að merkja eru einn og sami hópurinn.
Það má hins vegar ekki gleymast að ríkisábyrgð í framkvæmd er ekkert annað en stórfelld eignatilfærsla frá einum hópi manna yfir til annars hóps. Skuldsetning ríkisins til að mæta þessum ábyrgðum er að sama skapi skattheimta á komandi kynslóðir. Það er engin sanngirni í því að ófæddir einstaklingar beri þær byrðar sem við kjósum að axla ekki strax í dag. Hér verður að stíga varlega til jarðar og greiða úr flókinni stöðu.
Á endanum þarf alltaf einhver að ábyrgjast ábyrgðirnar. Í þessu tilviki eru það skattgreiðendur og komandi kynslóðir. Þá er betra að taka höggið strax og gefa þeim sem á eftir koma hreint borð til að athafna sig á. Enginn á að gjalda fyrir syndir feðra sinna.
—
Aðalatriðið er að við reynum að mæta vandanum með skynsemi og þekkingu að vopni. Upphrópanir eru ofboðslega auðveldar. Raunverulegar lausnir krefjast þess að menn hafi eitthvað fram að færa. Í bönkunum er mikið samansafn af hæfileikafólki. Þetta fólk mun finna kröftum sínum farveg á nýjan máta á næstu árum. Þess mun sjá stað á öllum sviðum samfélagsins.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007