Femínisti er skilgreindur á heimasíðu Femínistafélagsins sem ,,karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.” Femínismi er í raun samheiti yfir margskonar pólitískar og hugmyndafræðilegar stefnur sem ganga út á að berjast fyrir jafnrétti kynjanna.
Sá femínismi sem er hvað mest áberandi hérlendis er kenndur við Femínistafélag Íslands. Félagið hefur notað bæði hefðbundnar og óhefðbundnar aðferðir og barist gegn vændi, mansali, útlitsdýrkun, klámi og öðru sem femínistar innan þess telja afleiðingu karlaveldis og þar af leiðandi kvennakúgunar. Félagið hefur einnig lagt sitt af mörkum í baráttunni gegn kynbundnum launamun.
Einstaklingshyggjufemínismi er stefna sem færri kannast líklega við. Samkvæmt honum eiga konur að ná jafnrétti hver fyrir sig, á eigin verðleikum. Hann kennir að sértækar aðgerðir séu óþarfar, og leiði jafnvel til tjóns (sbr. kynjakvótar).
Að mínu mati hafa femínistar sem eiga upphaf sitt að rekja til tíunda áratugarins villst af leið af brautinni til jafnréttis og jafnra tækifæra. Þeir hafa misst sig í grátbroslegum umræðum og aðgerðum (sbr. lit samfella á fæðingardeildinni, gangbrautarkonum í stað karla og rétti kvenna til að fara berbrjósta í sund) og þannig sett blett á baráttuna fyrir jafnrétti og gert hana að hálfgerðum skrípaleik. Þessi barátta fyrir jafnrétti hefur gegnum tíðina verið háð af konum sem hafa unnið óeigingjarnt starf í þágu mikilvægrar hugsjónar, og án þess gæti meirihluti kvenna líklegast ekki um frjálst höfuð strokið. Ég geng jafnvel svo langt að segja að hugtakið ,,femínisti” sé ónýtt af framangreindum sökum.
Tvö mál hafa átt stærstan þátt í því að lokka femínistana af hinni göfugu leið með þessum afdrífaríku afleiðingum. Hið fyrsta myndi þá vera myndin sem þeir hafa dregið upp af hinni heimavinnandi húsmóður sem ofurseldum þræli karlaveldisins; táknræn mynd fyrir allt það vonda sem karlmaðurinn hefur gert konunni gegnum árin. Í dag birtist það s.s. í því að hann gerir hana ólétta og hlekkjar hana síðan ósýnilegum hlekkjum við eldhúsið þar sem hún heldur áfram að fæða börn og bakar þess á milli. Borgarstjórn hefur síðan útfært þessa hugmynd og gert karlmönnum auðveldara að ná þessu takmarki sínu með því að bjóða foreldrum greiðslu, kjósi þeir að dvelja heima með börnum sínum. Eða hvað? Getur verið að þessi ófrægingarherferð femínista gegn hinni heimavinnandi húsmóður byggist á misskilningi og röngum forsendum?
Þetta yfirlæti femínista sýnist mér gera ráð fyrir því að það sé í grunninn enginn munur á konum og körlum. Sá munur sem okkur sýnist í fyrstu vera, sé í raun tilbúin hugmynd framreidd af karlaveldinu. Smám saman hefur magnast upp einhvers konar ofdýrkun á hinni útivinnandi framakonu sem holdgervingi femínistans og þær konur sem hafa annars konar metnað og öðruvísi hagsmunamat hafa orðið undir. Í umræðunni hefur verið gert mjög lítið úr heimavinnandi húsmæðrum, hvort sem það er viljandi eður ei. Þar er máluð upp sú mynd að þær séu einhvers konar fórnarlömb sem hafi ekki sjálfstæðan vilja og hugsun. Það að reyna að sannfæra almenning um það að það sé ómerkileg atvinna að ala upp eigin börn er hrokafullt og gerir að engu það starf sem þúsundir íslenskra kvenna eru stoltar af. Og mega líka alveg vera það í friði. Það er val að vera heima með börnum sínum, og ótrúlegt en satt, kjósa það sumar konur og nokkrir karlmenn líka. Það er bara ekki hægt að taka móðureðlið og þau tengsl sem móðir myndar við barn sitt á níu mánaða meðgöngu út úr jöfnunni í umræðunni um jafnrétti.(Og ekki reyna að snúa út úr þessum orðum). Móðurástin er ekki hugtak sem Geiri Goldfinger fann upp. Ég verð þó að viðurkenna að þetta tiltekna mál er mér afskaplega hugleikið þar eð ég á móður með Mastersgráðu í sálar- og uppeldisfræði sem er heimavinnandi húsmóðir. Ég veit að henni sárnar umræða femínista í dag sem henni finnst gera lítið úr þeim ákvörðunum sem hún hefur tekið fyrir sitt líf. Hún er einfaldlega ekki tilbúin til að skrifa undir það að ævistarf hennar sé mistök sem verði að leiðrétta.
Síðara málið, sem ég vil meina að hafi afvegaleitt femínista og leitt huga þeirra frá málum sem þarfnast umræðu og innleggs í jafnréttisbaráttuna er þráhyggja þeirra um útlit kvenna. Sú umræða hefur snúist upp í það sem mér virðist vera andúð á kvenlegum eiginleikum og þokka þótt að ég sé ekki viss um að það hafi endilega verið markmið þeirra til að byrja með. Konur sem ganga í of litlum skóm hafa klárlega tekið það upp með sjálfum sér; fæstir karlar hafa fyrir því að líta svo langt niður að þeir taki eftir stærðinni á fótunum á okkur! Konur hafa val um það hvernig þær líta út. Þær eru ekki, þrátt fyrir það sem femínistar reyna að telja einhverjum trú um, strengjabrúður karlmanna sem er umhugað um það hvernig handarkrikar kvenna líta út. Konur eru hreinlega upp til hópa sterkari einstaklingar en svo að þær láti hr. Victoria’s secret ákveða útlitskröfur þeirra í gufubaði með Viktor&Rolf o.fl. karlaníðingum.
Svo gæti auðvitað verið að afvegaleiddir femínstar hafi einfaldlega ekkert betra við tímann sinn að gera en fjalla um t.d. skapahárasnyrtingu kvenna. Ég myndi samt halda að víða væri þörf á sjálboðavinnu kröftugs ungs fólks. Mér gæti auðvitað skjátlast.
Jafnrétti hefur ekki verið náð. Samfélagið er samt á góðri leið með að leiðrétta sig sjálft og er það aðallega að þakka vitundarvakningu kvenna, sem er að miklu leyti að þakka réttindabaráttu jafnréttissinnaðra kvenna. Konum í stjórnunarstöðum fjölgar jafnt og þétt og þær eru í meirihluta í nánast öllum deildum í háskólum í dag. Kvenkynið er ekki veikara kynið og það eru forréttindi, ekki veikleiki, að vera kona. Þetta er hugsunarháttur sem ég held að mörgum konum sé hollt að temja sér, og e.t.v. ekki síst femínískum konum. Konur í dag hljóta að vilja ná sínum markmiðum á eigin verðleikum, en ekki fyrir tilstilli jákvæðrar mismununar. Allra síst þurfum við á að halda úrsérgengnum stjórnmálamönnum í eldri kantinum til að berjast fyrir okkur konur og titla sig femínista, augljóslega í þeim tilgangi einum að höfða til yngri kjósenda.
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021