Á næstu mánuðum og árum mun fara fram ein mesta endurskipulagning íslensks auðs sem nokkurn tíma hefur átt sér stað. Sú endurskipulagning sem nú fer fram er þó ólík þeim sem áður hafa átt sér stað þar sem hún er óundirbúinn og engin skýr markmið hafa verið sett.
Þegar bankarnir voru einkavæddir var það gert í kjölfar yfirlegu yfir viðkomandi málefni, pólitískrar baráttu og umræðu. Um var að ræða lagasetningu sem fór hefðbundna leið í þinginu og umræðu í þjóðfélaginu. Markmiðin voru skýr. Sú umbreyting sem nú á sér stað er hins vegar neyðarráðstöfun sem gerist á nánast einni nóttu, neyðarráðstöfun sem enginn hefur óskað sér og enginn er viðbúin.
Fyrsta markmiðið með núverandi aðgerðum er að sjálfsögðu ljóst. Forða íslenskum almenningi frá því að vera um langa framtíð ábyrgur fyrir öllum skuldum íslenska bankakerfisins. En hvað svo?
Í öllum þessum sviptingum hafa flestir aðilar kerfisins fengið nýtt hlutverk á einni nóttu, bankastarfsmenn eru nú ríkisstarfsmenn, bankastjórar eru ráðgjafar skilanefndar (sem er skipuð af Fjármálaeftirlitinu) og fyrrum starfsmenn bankana sitja nú í stjórnum þeirra, það er að segja í skilanefndum þeirra og vinna þar; tja væntanlega fyrir ríkið – okkur hin.
Ég ætla öllu þessu fólki ekki annað en að það muni starfa eftir bestu getu að þeim erfiðu störfum sem því hefur nú verið falið. En kerfið er í miklum ólestri og allar leikreglur sem áður var spilað eftir eru horfnar. Vita menn eftir hvaða leikreglum er verið að spila í dag? Við megum ekki missa sjónar á því hvað gerist á þessum umrótatímum og það verður að fara fram eins fljótt og auðið er pólitísk umræða um það hvernig við spilum úr stöðunni.
Hvaða hlutverk verður nýju bönkunum og nýjum bankastjórnum fengið? Með hvaða pólitíska umboð munu nýjar bankastjórnir fara? Verður þeim falið að hámarka hagnað, lána til þeirra fyrirtækja sem geta skilað arði eða verður þeim falið að standa vörð um störf, landsbyggðina, ákveðna atvinnuvegi? Hvað verður um öll fyrirtækin sem óumflýjanlega geta ekki staðið við skuldbindingar sínar? Ætla bankarnir að eignast þau og reka þau áfram? Um alla þessa hluti þarf að fara fram umræða og taka pólitíska ákvörðun.
Það er eðlilegt að svörin við þessu liggi ekki fyrir í dag í ljósi þess hvernig aðstaðan kemur til. En það er heldur engin þörf á að bíða mjög lengi með ákvarðanir um þessi mál. Stjórnmálamenn þurfa að leita svara í hugsjónum sínum og því sem þeir standa fyrir.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020