Margt er nú skrifað og rætt og rökrætt og rifist. Eðlilega. Áfallið er svo stórt og sorgin svo mikil að tilgangslaust er að reyna útskýra það frekar. Langur tími mun líða þar til hægt verður að byrja ná jafnvægi í efnahagslífi landsins. Kaupmáttarskerðing er framundan, atvinnuleysi, gjaldþrot og hæglát jól. Raunveruleikinn er bæði kaldur og leiðinlegur. Tvennt er í stöðunni; gefast upp eða vinna sig úr þessum vanda. Vonandi kjósa nógu margir seinni kostinn svo hægt er að aðstoða þá sem velja hina leiðina að lifa áfram við breyttar aðstæður og knappari kjör.
Það vegur kannski ekki þungt í þjóðmálaumræðunni að segja hér að óþarfi er að örvænta. Sé litið til lengri tíma eru býsna margir möguleikar í stöðunni. Í raun hefur ekkert í grundvallaratriðum breyst í okkar þjóðfélagi, sem betur fer. Við eigum ennþá okkar auðlindir hvort sem þær teljast til náttúrurauðlinda eða mannauðs. En vissulega erum við töluvert mörgum seðlum fátækari.
Platpeningar segja sumir. Ekki er það alvitlaus skoðun. Réttara væri að kalla þetta lánspeninga sem okkur Íslendingum hefur mistekist herfilega að borga til baka með alvöru peningum. Umrótið í vikunni er til komið vegna þess að við getum ekki lengur eytt peningum sem við eigum ekki. Umskiptin eru sársaukafull og verða það eitthvað áfram. Rétt eins og fyrstu viðbrögð fíkils sem fær ekki lengur skammtinn sinn. En miklu skiptir að umskiptin taki snöggt af og valdi ekki óþarfa tjóni. Hætta er á að heilbrigður rekstur og raunveruleg verðmætasköpun í landinu sogist niður með lánsfjármálakerfinu. Fyrst svona vinsælt er að grípa til myndlíkinga um þessar mundir má líkja ástandinu á Íslandi við meðferð á krabbameini þar sem alltaf er hætta á að heilbrigðar frumur drepist við lyfjagjöfina. Ef of margar heilbrigðar frumur drepast, deyr sjúklingurinn.
En hvaða krabbamein er þá við að eiga? Með öðrum orðum hver er sökudólgurinn? Ef öllum smáatriðum er ýtt stundarkorn til hliðar blasir einfalt svar við. Við Íslendingar sköpuðum ekki nægjanleg verðmæti en skuldsettum okkur þess í stað þeim mun meira í eignasöfnun og neyslu. Kaupmáttur síðustu ára var að stórum hluta fenginn að láni. Aðstæður á alþjóðlegum mörkuðum gerðu það svo að verkum að spilaborgin á Íslandi féll hraklega og snöggt.
Eftir situr sú lexía að peningar vaxa ekki á trjánum inni í stórum íslenskum banka sem æðir út í útrás. Þessa leiðinlegu lexíu er því miður hollt fyrir okkur öll að læra svo við getum snúið okkur að því að eyða minna og vinna meira.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020