Þessa dagana fjarar út í íslensku fjármálakerfi eftir langvarandi háflóð. Það tímabil sem nú fer í hönd verður ekki það skemmtilegasta, en slíkri uppstokkun fylgir endurnýjun, og í kjölfarið skapast svigrúm til nýrra landvinninga. Í millitíðinni þurfa landsmenn og stjórnvöld að anda djúpt, bíta á jaxlinn, og standa vörð um regluverk viðskiptalífsins. Sennilega eru þeir fáir sem ekki hafa orðið fyrir kjaraskerðingu í kjölfar þeirra áfalla sem hafa dunið á. Þeir sem eiga húsnæði, þeir sem skulda verðtryggð lán, þeir sem hafa tekið lán í erlendum gjaldeyri, þeir sem hafa sett sparnað sinn í hlutabréfamarkaðinn, og þeir sem fjárfestu í peningamarkaðssjóðum sem báru meiri áhættu en leit út fyrir. Jafnvel þeir sem áttu fjármuni á ríkistryggðum bankareikningum eru í verri aðstöðu nú en áður því verðbólga hefur verið umtalsverð.
En við því er lítið að gera. Það er einfaldlega minna til skiptanna en menn töldu sér trú um, og ýmsir lifðu um efni fram. Langflestir munu geta borið áfallið, þótt ekki sé það skemmtilegt, en einhverjir einstaklingar og fyrirtæki munu ekki geta staðið við skuldbindingar sínar. Warren Buffet lét einu sinni hafa eftir sér: „Only when the tide goes out do you discover who’s been swimming naked.“ Undanfarnar vikur og mánuði hefur komið í ljós að ýmsir syntu berrassaðir á íslenskum fjármálamarkaði. Þeir, og í sumum tilfellum viðskiptavinir þeirra, munu ekki fara vel út úr þeirri fjármálakreppu sem nú geisar um allan heim.
En til að niðursveiflan verði að tækifæri fyrir nýja uppsveiflu þarf að tryggja að trúverðugleiki þeirra sem syntu í sundskýlu með kút bíði ekki varanlega hnekki, bara vegna þess hvar þeir syntu. Til lengdar er langmikilvægast fyrir íslenskt hagkerfi að stjórnvöld haldi áfram að reka ábyrga hagstefnu, en láti ekki undan þeim röddum sem vilja skyndilausnir á kostnað skynsamlegs viðskiptaumhverfis.
Í fyrsta lagi þarf að standa vörð um íslensku krónuna sem „store of value“ eða verðmætaforða sem hægt er að nota til viðskiptafjárfestinga. Til að íslensk fyrirtæki geti fjármagnað sig í framtíðinni má vantrúin á krónunni ekki vera slík að erlendir fjárfestar forðist góð tækifæri eingöngu vegna þess að krónan sé of varhugaverð. Sveiflur á gengi krónunnar eru ekki banabiti í sjálfu sér, þótt undanfarnar vikur séu auðvitað ekki nokkuð sem má endurtaka sig. En gjaldeyrismarkaður þarf að vera virkur svo fjárfestar geti varið stöður sínar í krónunni. Framvirkur markaður með gjaldeyri á Íslandi hefur verið í lamasessi svo mánuðum skiptir og á því verða stjórnvöld að vinna bug.
Íslensk stjórnvöld þurfa að einnig að halda áfram að senda skýr skilaboð um að ekki verði gefist upp í stríðinu við verðbólguna. Þegar stór hluti landsmanna hefur tekið lán sem annaðhvort eru verðtryggð eða í erlendri mynt er undarlegt að heyra ákall um aðgerðir sem myndu margfalda þá miklu verðbólgu sem þó er til staðar. Undanfarið hafa heyrst kröfur um að „afnema“ verðtryggingu lána, að því er virðist vegna þess að verðbólgan hefur leikið suma skuldunauta grátt. Deiglan hefur áður fjallað um hvílík fjarstæða slíkt væri, og hugmyndir um afturvirkt afnám verðtryggingar til að bjarga þeim sem hafa skuldsett sig í of ríkum mæli eru enn meiri firra.
Slíkar hugmyndir eru dæmi um það varasamasta sem hefur heyrst í umræðu undanfarinna daga og vikna. Hugmyndir um það að ríkið grípi inn í viðskiptasamninga á frjálsum markaði myndu – ef þær væru teknar alvarlega – valda djúpu og langvarandi tjóni á íslensku viðskiptalífi. Af sama meiði eru sumar þær hugmyndir sem hafa heyrst um ríkisvæðingu bankanna. Ef bankarnir geta ekki fjármagnað sig getur ríkið þurft að taka þá yfir, líkt og gerðist í tilviki Glitnis. En nauðungaryfirtaka banka sem ekki þurfa að leita á náðir seðlabankans um fjármögnun væri alger afleikur.
Sem betur fer hafa forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra allir sent út skýr skilaboð um að baráttan við verðbólguna haldi áfram, og að leikreglur viðskiptalífsins verði ekki brotnar þótt tímar séu erfiðir. Undir þau skilaboð þurfa aðrir að taka undir á skýran hátt, hvort sem þar fara stjórnarliðar, stjórnarandstæðingar eða aðrir aðilar viðskiptalífsins.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020