Skapandi eyðilegging

Því er svo sannarlega ekki að leyna að staðan í íslensku fjármálalífi er grafalvarleg þessa dagana. Fjölmiðlar, bloggarar og nánast hver einasti maður keppast um að koma fram með hvern svartsýnisspádóminn á fætur öðrum. Það hefur legið vonleysi í loftinu síðustu vikuna. En það sem við erum að verða vitni að þessa dagana er það sem ég kalla skapandi eyðileggingu. Hún er góð til lengri tíma.

Því er svo sannarlega ekki að leyna að staðan í íslensku fjármálalífi er gríðarlega alvarleg þessa dagana. Fjölmiðlar, bloggarar og nánast hver einasti maður keppast um að koma fram með hvern svartsýnisspádóminn á fætur öðrum. Það hefur legið vonleysi í loftinu síðustu vikuna. Þar sem ég, ásamt þorra þjóðarinnar, er í þeirri aðstöðu að geta sjálfur nákvæmlega ekkert gert í málinu (nema treyst ráðamönnum fyrir því) horfir staðan þannig við mér að ég hafi tvo valmöguleika: Horfa á neikvæðu hliðarnar eða þær jákvæðu? Bregst ég við með vonleysi og volæði og legg árar í bát? Eða horfi ég á ljósglæturnar í myrkrinu, lít til þeirra tækifæra sem skapast í kreppunni og bretti upp ermar?

Ég hef ákveðið að horfa á jákvæðu hliðarnar á öllum þessum ósköpum, því þær eru svo sannarlega nokkrar.

Við erum þessa dagana að verða vitni að því sem ég kalla skapandi eyðileggingu. Hún er góð! (Auðvitað má færa rök fyrir því að hún mætti vera minni í sniðum en ég mun ekki fara út í þá sálma hér í pistlinum) Skapandi eyðilegging gerir það að verkum að illa rekin og óarðbær fyrirtæki rúlla yfir. Gott mál. Hún gerir það að verkum að fjárfestingar verða betur ígrundaðar og þar af leiðandi arðbærari. Gott mál. Þar sem minna fjármagn er í umferð fá aðstandendur lélegra fjárfestingartækifæra ekki nægt fjármagn. Gott mál. Skapandi eyðilegging sem þessi gerir það einnig að verkum að fólk og fyrirtæki þurfa að spara og hagræða í auknum mæli. Það ýtir undir nýsköpun og tækninýjungar sem spara tíma, pening, orku o.s.fr. Það ýtir síðan undir hagvöxt til lengri tíma. Frábært mál.

Það má ekki misskilja það sem svo að ég sé ánægður með að bankakerfið sé í svo miklum vandræðum, þvert á móti. Við höfum einfaldlega ekki verið í góðu jafnvægi.

Bankakerfi hverrar þjóðar má líkja við æðakerfi mannslíkamans, algjörlega nauðsynlegt. Bankakerfið flytur súrefni, orku og næringu til fyrirtækjanna í landinu og því lífsnauðsynlegt að fjármagn flæði óhindrað um þetta æðakerfi. Það sem hefur myndað ójafnvægið undanfarin ár er að það hefur átt sér stað svokallaður neikvæður þekkingarflutningur (e. brain drain) frá ýmsum atvinnugreinum yfir í fjármálakerfið. Fjármálakerfið hefur sogað til sín flesta hæfustu og best menntuðu starfsmennina í landinu sem hefur bitnað harkalega á öðrum atvinnugeirum. Þetta hefur leitt til þess að þau fyrirtækin í landinu s.s. útflutningsfyrirtæki, hátæknifyrirtæki, orkufyrirtæki, iðnfyrirtæki o.fl. hafa ekki náð að halda í við vöxt fjármálageirans. Vöxtur þessara fyrirtækja og stofnun nýrra vaxtarsprota er hins vegar lífsnauðsynlegur fyrir fjármálageirann sem byggir grundvöll sinn á lánum til fyrirtækjanna. Alveg eins og fjármálageirinn er lífsnauðsynlegur þessum fyrirtækjum. Jafnvægi þarf að ríkja.

Það eru allar líkur á því að þegar íslenskt efnahagslíf komist upp úr þeim öldudal sem það er nú í muni jafnvægi aftur verða náð í þessu tilliti. Nú ætti það því að vera markmið okkar allra að horfa á jákvæðu hliðarnar og þau tækifæri sem nú eru að skapast, nýta tækifærið og byggja upp verðmætasköpun til framtíðar. Grunnstoðir landsins eru gríðarsterkar og þegar jafnvægi verður náð munum við því standa enn sterkari eftir að hafa lært af þessari reynslu.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)