Í kvikmyndinni Groundhog Day þá segir Bill Murray í einu atriðinu að hver einasti dagur sem hann upplifir sé verri en dagurinn þar á undan og þarmeð sé hver dagur versti dagur ævi hans. Hljómar kunnuglega.
Þessi sena lýsir ástandinu á íslenskum fjármálamarkaði. Núna er hver dagur versti fjármáladagur í sögu þjóðarinnar.
“Hvað er að gerast?” Spyr fólk hvert annað út á götu og einfalda svarið er það að það er enginn kaupandi til að íslensku krónunni. Það finnst ekki neinn aðili sem hefur einhvern áhuga á því að kaupa hana. Við erum komin í svipaða krísu og Tæland árið 1997, Argentína 1999 og Rússland 2001.
Íslensku bankarnir hafa barist í langan tíma við lausafjárkreppu í heiminum sem lýsir sér þannig að bankar sitja á peningunum sínum og vilja ekki hreyfa þá. Síðastir í biðröðinni eftir alþjóðlegu fjármagni eru íslensku bankarnir. Þannig að þegar það takmarkaða fjármagn sem er í umferð hreyfir sig þá er síðasti viðkomustaðurinn Ísland. Á meðan Íslensku bankarnir fá ekki lán í útlöndum þá er enginn eftir sem hefur áhuga á því að kaupa íslenskar krónur.
Í bókinni „The geography of Bliss“ er því velt fyrir sér hvernig Íslendingar séu frekar afslappaðir með smá verðbólgu en hinsvegar rjúka upp með andfælum í hvert sinn sem atvinnuleysi byrjar að kræla á sér. Þetta er þveröfugt í bandaríkjunum þar sem allt brjálast þegar verðbólga sést en 5% atvinnuleysi þykir bara venjulegt.
Niðurstaða höfundar bókarinnar var sú að íslendingar væru dálítil hópsál. Við viljum frekar sameiginlega þjáningu (verðbólgu) sem við finnum öll fyrir heldur en þjáningu sem leggst á einungis hluta þjóðarinnar (atvinnuleysi). Nú reynir meir á þessa samstöðu en nokkurn tímann áður.
Það er lítið sem ekkert sem almenningur getur gert við núverandi aðstæður annað en að draga saman og að einbeita sér að því að borga skuldir. Stóru lausnirnar sem allir bíða eftir verða þó að koma frá stjórnvöldum.
Ein lítil hugmynd…
Fyrir tveimur árum þótti það þjóðráð að stórminnka þorskveiðar í þeim tilgangi að prufukeyra í eitt skipti fyrir öll ráðgjöf Hafró. Þetta var líka ekkert mál enda treysti þjóðin ekki svo mikið á fiskveiðar.
Nú þegar landið hvílir á heljarþröm og forsætisráðherrann ákallar þjóðina að framleiða meiri vörur til útflutnings, væri þá ekki mögulegt að veiða aðeins meira þorsk?
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021