Í dag er kalt á Íslandi ekki bara verðurfarslega heldur einnig efnahagslega. Ráðamenn virðast standa ráðþrota gagnvart vandanum. Þeir og Seðlabankinn hafa setið á hliðarlínunni þar til síðasta mánudag þegar meirihluti Glitnis var seldur ríkinu.
Yfirvöld vonuðust með þessu að bæta efnahagsástandið og sjá til þess að Glitnir gæti staðið við skuldbindingar sínar. Síðan þá eru liðnir þrír dagar og ekki hægt að segja að ástandið hafi batnað. Íslenska krónan hefur verið í frjálsu falli, OMX15 lækkaði um rúm 16% á þriðjudaginn, lánalínur við útlönd eru lokaðar og nú keppast hin erlendu matsfyrirtæki um að lækka matið á Íslandi.
Einnig virðist þessi yfirtaka ríkissins hafa gífurlega slæm áhrif á hluthafa í Glitni. Stoðir hafa þegar farið í greiðslustöðvun og telja margir að fleiri félög muni fara svipaða leið. Allar afleiðingar inngrips ríkisstjórnarinnar eru því ekki komnar fram og miðað við það sem á undan er gengið er eðlilegt að margir hafi áhyggur af því sem koma skal.
Á meðan bíður Seðlabankinn átekta. Þar á bæ eru menn búnir á fá vilyrði fyrir gjaldeyri hjá Norrænu seðlabönkunum ef kreppa myndi að. En þá verður maður að spyrja sig hvenær kreppir að? Einn af stærstu bönkum landsins er farinn á hausinn og gjaldmiðill þjóðarinnar verður verðlausari með hverjum degi.
Í útlöndum hafa seðlabankar verið að sveigja heimildir til þess að auka magn peninga í umferð en hér á landi hefur hið gagnstæða átt sér stað. Seðlabankinn þarf að skýra mál sitt til að svara þeim hörðu ásökunum sem fram hafa komið á störf hans síðustu daga. Það er nauðsynlegt að báðar hliðar málsins líti dagsins ljós svo að einhliða ásakanir rýri ekki traust bankans.
- Af veirum og vöðvabólgum - 19. nóvember 2020
- Minningahöll að molum orðin - 5. október 2015
- Steypum yfir miðbæinn! - 30. september 2015