Um þessar mundir gengur yfir eitt mesta umrót á alþjóðlegum fjármálamörkuðum í mjög langan tíma. Markaðir um allan heim hafa lækkað verulega síðustu mánuði og stórar fjármálastofnanir riðað til falls. Ekki sér fyrir endann á umrótinu og afleiðingarnar gætu orðið langvarandi niðursveifla í efnahagskerfi Vesturlanda og jafnvel heimsins alls. Við Íslendingar höfum síst farið varhluta af þessum ósköpum og ekki sér enn fyrir endann á þeim.
Umrót sem þetta veldur eðlilega miklum óróa og vekur ugg í brjósti margra um framtíð sína og sinna. Áhyggjur um hvort og hvernig það geti tryggt sinn hag uns ósköpin hafa gengið yfir og birta tekur á ný. Það er því kannski eðlilegt að tækifærissinnar grípi þetta gullna tækifæri til að gagnrýna þá hugmyndafræði sem situr við stýrið á frjálsum markaðshagkerfum. Að um eins konar skipbrot frjálshyggjunnar sé að ræða. Þeir hinir sömu hugsa sér nú gott til glóðarinnar í þrá sinni til að umlykja samfélagið á ný í faðm hins opinbera, og á sem flestum sviðum. Og endurvekja daun stöðnunar og hafta sem áður ríktu í efnahagskerfi landsins.
En þvert ofan í málflutning slíkra aðila eru umbrot sem þau, sem nú ganga yfir, einmitt merki um gagnsemi frjálsra markaðskerfa og þeirrar hugsunar sem að baki þeim liggur. Þótt það hljómi mótsagnakennt er þetta í raun hennar besta stund. Fæstir sjá eitthvað jákvætt við viðlíka ósköp og þau sem nú ganga yfir. En staðreyndin er samt sú að ósköpin eru í raun ein allsherjar markaðsleiðrétting á mikilli skyssu sem hafði fengið að grassera um nokkurt skeið. Þessi skyssa fólst í of mikilli áhættusækni í fjárfestingum, ekki síst á húsnæðismarkaði, neðanmálslánum á röngum kjörum (ekki síst vegna opinbers þrýstings á slíkt), óábyrgri meðferð á ríkisábyrgð (eða hreinlega óþarfa ríkisábyrgð), ógagnsæi skuldabréfavafninga og lélegs eftirlits. Svo eitthvað sé nefnt. Fyrst og fremst í Bandarikjunum auðvitað, en önnur hagkerfi eru síður en svo saklaus.
Alheimsvæðingin, sem hefur fært heimsbyggðinni einhvert sitt mesta framfaraskeið nokkru sinni, hefur svo orðið til þess að þessi leiðrétting þarf að ganga yfir flest hagkerfi sem því eru tengd. Og ósköpin sem dynja yfir Íslendinga nú tengist alþjóðlegu niðursveiflunni órjúfanlegum böndum. Þetta kemur til viðbótar við leiðréttingu á gengi íslensku krónunnar og refsingu fyrir langvarandi fjármálaólæsi almennings og fyrirtækja undanfarin ár, eitthvað sem kemur sífellt betur í ljós og þarf augljóslega að laga.
En ef litið er heildrænt á málið má segja sem svo að brölt sem nú gengur yfir séu viðbrögð markaðslögmálanna við þeirri vitleysu sem fengið hefur að ganga of lengi. Stopp. Hingað og ekki lengra. Nú leiðréttum við þetta og byrjum upp á nýtt. Og gerum það enn betur en áður. Gerum markaðskerfið enn frjálsara og gerum menn enn betur ábyrga fyrir eigin gjörðum og ákvörðunum en áður, öllum til heilla.
Það er vont á meðan á því stendur en til framtíðar er það okkur til heilla. Því fyrr getum við staðið í lappirnar á ný og tekið á móti heiminum með útbreiddan arminn. Og vonandi aðeins betur og skynsamar en áður.
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021