Sú gagnrýni á Seðlabankann sem Jón Steinsson, Deiglupenni og doktor í hagfræði, setur fram í grein sinni í Morgunblaðinu í dag hlýtur að vekja marga til umhugsunar um hlutverk og ábyrgð bankans í þeim þrengingum sem steðja að fjármálamörkuðum. Þótt íslenskir bankar virðist ætla að standa holskefluna af sér, þá er ljóst að heimilin í landinu munu þurfa að axla þungar byrðar.
Jón er ekki fyrsti maðurinn til að gagnrýna Seðlabankann eftir að niðursveiflan hófst. Gagnrýni flestra hefur verið heldur efnisrýr og fremur byggð á pólitískri eða jafnvel persónulegri óvild í garð stjórnenda Seðlabankans. Jón Steinsson hefur hins vegar oft tekið upp hanskann fyrir bankann og varið vaxtastefnu hans með sterkum rökum. Í þessu ljósi hefur gagnrýni Jóns á framgöngu bankans nú ólíkt meira vægi en píp og köll þeirra sem að jafnaði beina spjótum sínum að Seðlabankanum.
Jón bendir í grein sini á að lykilatriði í því að verja krónuna og þar með verðlag í landinu sé að koma gjaldeyrismarkaðinum aftur í gang og í því verkefni hafi Seðlabankinn brugðist. Taka má undir með Jóni að illskiljanlegt sé hvers vegna Seðlabankinn láti viðgangast að vaxtamunur á gjaldeyrismarkaði versni og versni á meðan krónan er í frjálsu falli:
„Það er hlutverk Seðlabankans að tryggja fjármálastöðugleika og stöðugt verðlag. Í þessu felst að bankinn á að tryggja að fjármálamarkaðir á Íslandi og markaðir með íslensku krónuna starfi eðlilega. Þetta hefur Seðlabankinn ekki gert að undanförnu og það hefur haft verulega neikvæðar afleiðingar fyrir verðlag í landinu,“ segir Jón í grein sinni.
Gagnrýni Jóns er þess eðlis að óhjákvæmilegt er að stjórnendur Seðlabankans taki hana til sín og að ríkissjórnin styðji við Seðlabankann með þeim hætti að hann sé fær um bæta ráð sitt í þessum efnum. Krónan er gjaldmiðill Íslendinga og vangaveltur um upptöku evru eru ekki lausn á þeim vanda sem taka þarf á tafarlaust – hvað svo sem verður um skipan mála til framtíðar.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008