Það er engin ástæða til þess að draga úr því að íslenskt efnahagslíf hefur átt betri stundir. Fyrirtæki jafnt sem einstaklingar hafa farið illa út úr gengisfalli krónunar og aurskriðu hlutabréfamarkaðarins. Hins vegar er heldur engin ástæða til þess að horfa framhjá því að ástandið hefur verið mun verra á síðustu áratugum.
– Á Íslandi eru sárafáir einstaklingar undir fátækramörkum.
– Á Íslandi er neyslusamfélagið enn í nokkrum ham.
– Á Íslandi eru mikil atvinnutækifæri, þrátt fyrir fjöldauppsagnir.
– Á Íslandi eru gríðarleg tækifæri til atvinnusköpunar.
Vissulega væri það óskandi og ætti í raun að vera krafa í því velferðarsamfélagi sem við búum við að enginn þyrfti að líða þá skelfingu að eiga hvorki til hnífs né skeiðar. Það er þó umhugsunarvert að jafnvel þessum tímum, sem samkvæmt fjölmiðlum eru þeir síðustu og verstu, liggja tækifærin víða. Harðasta félagshyggjufólk á það til að gleyma ákveðnum þáttum þegar það kveinar yfir aðstöðu landans. Á sama tíma og atvinnuleysi eykst er næga vinnu að fá í félagsþjónustu, starfsvettvangi sem félagshyggjan hampar en vinnuaflið hafnar, þrátt fyrir versnandi fjárhagsstöðu.
Atvinnusköpun er einnig að finna í þessum fjármálahamförum. Nýsköpunar- og sprotafyrirtæki þrífast þrátt fyrir vesældina og ný störf hafa sprottið upp úr ferðaiðnaði. Sérstaklega er það eftirtektarvert að á þessum harðneskjumánuðum eru að rísa tvær risaverslanir á vegum Bauhaus og Rúmfatalagersins, sem þó starfa bæði innan Ísat-kóða sem telst áhættumikill í ljósi versnandi greiðsluhegðunar og vanskila.
Það er einfaldlega nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að gera okkur grein fyrir því hversu gott við höfum það. Eðlilega er ekki auðvelt að kyngja þessu eftir að erlendu lánin sem maður tók fyrir ári síðan hafa rokið upp hraðar en óverðskuldaðar vinsældir ABBA en satt er það engu að síður. Hversu mikil hræsni væri það að ganga á fund einstaklings í þriðja heiminum og segja honum frá eigin vesæld og óförum? Með því að halda neyslumynstrinu innan eðlilegra marka eiga lang flestir íbúar þessa lands möguleika á því að lifa góðu lífi sem einskorðast ekki við einsleitan fréttaflutning fjölmiðlanna. Á hverju skal í raun mark taka þegar hver sérfræðingurinn segir annað en sá næsti, þrátt fyrir að vera allir hámenntaðir. Skynsemin hlýtur að liggja í eigin barmi og ef við sem einstaklingar höfum reiður á eigin fjármálum, þá mun skútan sigla þennan öldusjó á enda.
Í þessu amstri fjármálanna má ekki gleyma mikilvægi andlegrar og félagslegrar vellíðunar. Við verðum að rækta þessa þætti enda er löngu sannað að jákvæðni og félagsleg meðvitund eru hornsteinar hamingjunnar. Og hamingja hlýtur að vera hverjum manni verðugt markmið.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010