Í vikunni bárust fréttir af því að fréttastofa Vísis og Stöðvar 2 hefðu verið sameinaðar. Þáttur í breytingunum var að fréttastjóri Vísis var ráðinn sem nýr fréttarstjóri sameinuðu fréttastofanna. Mun þetta leiða til vandaðri fréttaflutnings á þessum tveimur miðlum?
Fréttavefurinn visir.is hefur alla tíð lifað í skugga síns helsta keppinauts, mbl.is, og virðast því hafa tekið þá ákvörðun að flytja öðruvísi fréttir en þar eru birtar. Þetta hefur valdið því að á fréttavef Vísis má oftar en ekki finna æsifréttir líkt og þekkist í erlendum fjölmiðlum, krassandi slúður af fína og fræga fólkinu og það sem verst er – umfjöllun um mál sem eru til rannsóknar hjá lögreglu og jafnvel áður en þau koma á borð til lögreglu.
Slík umfjöllun fjölmiðla getur alveg átt rétt á sér, en þá þarf hún líka að vera hófsamleg. Mynd- og nafnbirtingar grunaðra manna er vandmeðfarnar og geta í mörgum tilfellum spillt fyrir rannsókn lögreglu. Réttindi grunaðra manna eru svo eitthvað sem allir fjölmiðlamenn ættu að kynna sér því þar er víða pottur brotinn í umfjöllun fjölmiðla eins og hún er í dag. Þá má heldur ekki gleyma brotaþola sem getur liðið fyrir það ef mál hans fær mikla fjölmiðlaumfjöllun.
Talið hefur verið heimilt að nafngreina eða birta mynd af grunuðum mönnum ef almannahagsmunir krefjast þess. Raunin virðist hins vegar vera sú að slíkt sé oftar gert þegar um nafntogaða einstaklinga er að ræða eða um brot er að ræða sem líklegt er til að vekja athygli almennings. Mætti þar helst nefna ofbeldis- og kynferðisbrot. Því miður fer lítið fyrir almannahagsmunum í slíkri umfjöllun og miðar hún oftast nær eingöngu að því að svala hnýsni og forvitni almennings. Versta dæmið um slíka blaðamennsku var bersýnilegt á DV fyrir nokkrum árum þar sem menn beinlínis nærðust á ógæfu annarra.
Þetta vekur upp spurningar um ábyrgð blaðamanna. Því miður virðist almenningur ekki alltaf geta dregið mörkin í því upplýsingaflæði sem honum stendur til boða í nútímasamfélagi. Reynslan frá þessu svartasta tímabili í sögu DV sýndi að menn gátu gengið ansi langt áður en að fólk hætti að kaupa blaðið og í raun þurfti mikinn harmleik til að stöðva útgáfu þess. Þegar fjallað er um vandmeðfarin mál þá verða fjölmiðlamenn að sýna ábyrgð og stilla umfjöllun sinni í hóf. Ábyrgð fjölmiðlamanna hefur aldrei verið meiri.
Áherslubreytingar Vísis á sínum tíma voru svosem alveg skiljanlegar frá þeirra bæjardyrum enda jukust vinsældir vefmiðilsins umtalsvert við þær. Við sameiningu fréttastofanna verður hins vegar vonandi önnur áherslubreyting gerð. Fréttir Vísis verða vonandi aðlagaðar hófsamari fréttaflutningi Stöðvar 2 en ekki öfugt. Fréttastofa Stöðvar 2 er nú þegar engin sunnudagaskóli eins og t.d umfjöllunin um Kompásmálin bar með sér. Óskandi er að hin nýja sameinaða fréttastofa reyni að afla sér vinsælda með vandaðri fréttaumfjöllun en ekki æsifréttamennsku.
- Sæmdarréttur – réttur til höfundaheiðurs - 3. maí 2011
- Sæmdarréttur – nafngreiningarréttur - 2. maí 2011
- Gull og grænir skógar - 5. júlí 2009