Hugmynd um eigið tilgangsleysi

Framsóknarmenn virðast nú sjá tækifæri í því að beita sér í Evrópumálum en staða flokksins í skoðanakönnunum er ekki beysin, þrátt fyrir óvinsældir ríkisstjórnarinnar og miklar efnahagshremmingar. Í Fréttablaðið í dag rita þrír framsóknarmenn grein þar sem hvatt er til þess að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla næstkomandi vor um hvort hefja eigi aðildarviðræður við ESB. Þessi hugmynd er ekki ný, enda kynnti Guðni Ágústsson hana fyrir miðstjórn Framsóknarflokksins síðastliðið vor.

Framsóknarmenn virðast nú sjá tækifæri í því að beita sér í Evrópumálum en staða flokksins í skoðanakönnunum er ekki beysin, þrátt fyrir óvinsældir ríkisstjórnarinnar og miklar efnahagshremmingar. Í Fréttablaðið í dag rita þrír framsóknarmenn grein þar sem hvatt er til þess að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla næstkomandi vor um hvort hefja eigi aðildarviðræður við ESB. Þessi hugmynd er ekki ný, enda kynnti Guðni Ágústsson hana fyrir miðstjórn Framsóknarflokksins síðastliðið vor.

Í grófum dráttum gengur hugmyndin út á að gengið verði til tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega aðild. Sú fyrri yrði þá um hvort landsmenn vildu yfirhöfuð fara í viðræður og í þeirri síðari yrði þá borinn undir þjóðina sá samningur sem stjórnvöld hefðu á borðinu eftir slíkar viðræður. Leggur Framsóknarflokkurinn þessa tillögu fram að eigin sögn til sátta í Evrópumálum.

Allt hljómar þetta vel en sú spurning hlýtur að vakna til hvers verið sé að starfrækja stjórnmálaflokk og bjóða fram til þings undir hans merkjum ef sami flokkur að haga stefnu sinni eftir úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki eru margir mánuðir síðan þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram í formi þingkosninga. Þar gafst stjórnmálaflokkunum færi á því að leggja verk sín og stefnu í dóm kjósenda. Hver var aftur stefna Framsóknarflokksins þá?

Í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins 2007 gafst kjósendum kostur á því að taka afstöðu til flokksins á grundvelli stefnu hans í Evrópumálum út frá eftirfarandi yfirlýsingu:

„Við viljum: tryggja framtíðarhagsmuni þjóðarinnar í Evrópu, í samstarfi við Evrópusambandið innan EES og við EFTA-ríkin.“

Svo mörg voru þau orð og að því gefnu að um framsóknarmenn er að ræða verður þessi yfirlýsing ekki öllu afdráttarlausari um að stefna flokksins fyrir síðustu kosningar, sem voru reyndar fyrir heilum 16 mánuðum, var að Ísland ætti að standa fyrir utan Evrópusambandið.

Framsóknarflokknum til varnar ber þó að geta þess að Evrópumálin voru ekki kosningamál í síðustu kosningum, einkum vegna þess að eini stjórnmálaflokkur landsins sem hafði aðild á sinni stefnuskrá, Samfylkingin, lagði enga áherslu málið, hvorki í kosningabaráttunni né í stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn.

Auðvitað geta stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar breytt stefnu sinni í einstökum málum ef aðstæður breytast. En að falla frá stefnunni án þess að neitt komi í staðinn, eins og hugmynd Framsóknarflokksins gengur út á, er alveg nýtt. Menn komast ekki öllu nær því að lýsa yfir tilgangsleysi sínu.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)