Launamunur kynjanna er staðreynd og virðist vera að aukast samkvæmt nýjustu fréttum. Það er einnig staðreynd að konur eru færri í stjórnunarstöðum. Þessar tvær staðreyndir eru farnar að hljóma sem gömul tugga í eyrum margra þó flestir séu nú sammála að samfélag sem okkar eigi ekki að sætta sig við slíkt og að úrbóta sé þörf. Getur verið að við konur séum smám saman að sætta okkur við orðinn hlut eða hvers vegna sækjast konur ekki í meira mæli eftir hærri launum innan fyrirtækja og stjórnunarstöðum en raunin virðist vera?
Í umræðu um jafnrétti kynjanna koma ævinlega upp þær hugmyndir að koma á einhvers konar kynjakvótum á sem flestum stöðum og þannig skylda fyrirtæki til að hafa ákveðið kynjahlutfall í stjórnum sínum. Að mati höfundar snýr slík leið því miður ekki rót vandans þó vissulega myndi hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja aukast. Rót vandans virðist hins vegar vera að konur eru ekki að sækjast eftir þessum stöðum til jafns við karla. Það er vandamálið. Hvers vegna, er það sem við eigum að beina sjónum okkar að í jafnréttisbaráttunni. Hvað er það í okkur konum sem heldur í okkur, hvers vegna treystum við okkur ekki til jafns við karla og hvers vegna styðjum við ekki þær konur sem þó taka af skarið?
Nýlega skrifaði Ásdís Jóna Sigurjónsdóttir BA- ritgerð sem bar heitið “Eru tengsl milli kynferðis og árangurs í prófkjörum stjórnmálaflokka?“. Þar velti hún upp þeirri spurningu hvort konur standi verr að vígi í prófkjörum en karlar. Það sem kom hins vegar í ljós var að konur voru ekki minna líklegar en karlar, til að ná þeim sætum sem þær stefndu á. Þær voru einfaldlega ekki að sækjast eftir hærri sætum. Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hvers vegna konur sækist ekki í meira mæli eftir efstu sætunum í prófkjörum.
Í allri umræðu um jafnrétti kynjanna má ekki gleyma að taka inn í jöfnuna þann þátt sem samfélagið spilar. Við mótumst af því samfélagi sem við ölumst upp í og það virðist vera staðreynd að við búum í samfélagi sem hyglir körlum, og það gera jafnt konur sem karlar. Getur því ekki verið að við þurfum að líta okkur aðeins nær og huga að uppeldi barnanna okkar og hvaða veganesti við gefum þeim út í lífið?
Að ofansögðu verður ekki hjá því komist að minnast á það frumkvöðlastarf sem er verið að vinna nákvæmlega á þessu sviði, hjá Hjallastefnunni ehf. Hugmyndafræði Hjallastefnunnar felur meðal annars í sér metnaðarfullt jafnréttisstarf með kynjaskiptum deildum á þeim leikskólum og nýtilkomnum grunnskólum sem Hjallastefnan rekur.
Það verður ekki framhjá því litið að kynin eru ólík, drengir og stúlkur á leikskóla hegða sér ólíkt, leika sér ólíkt og bregðast ólíkt við. Markmið Hjallastefnunnar er að bæta kynjunum það upp það sem þau fara á mis við í kynjablönduðu starfi. Í stuttu máli þá hættir stúlkum til að vera “óvirkar”, þ.e.draga sig í hlé og láta lítið fara fyrir sér en drengjum hættir til að vera “of virkir”, þ.e. einbeitingarskortur, hávaði og ólæti. Með kynjaskiptingu fá bæði kynin tækifæri til að blómstra á eigin verðleikum. Þannig er líka hægt að koma í veg fyrir einokun kynjanna á hefðbundum hlutverkum, t.d. að drengir vilji frekar leika sér í ærslafullum leikjum en stúlkur vilji heldur sitja prúðar og lita. Einmitt í kynjaskiptingu fá stúlkur tækifæri til að ærslast án truflunar frá hinu kyninu og á sama hátt fá strákar að lita í rólegheitum óáreittir. Þessi hugmynd Hjallastefnunnar gengur í raun út á að bæði kyn þjálfi sérstaklega þá eiginleika sem þau skortir í þeirri eigin reynsluheimi. Endanlegt markmið kynjaskiptingar er svo að sjálfsögðu jákvæð kynjablöndun þar sem hvorugt kyn þarf að gjalda fyrir kynferði sitt.
Ekki verður fullyrt um hvort þetta sé það sem til þarf, til að konur sækist í auknum mæli eftir hærri launum innan fyrirtækja og stjórnunarstöðum, en hugsjón Hjallastefnunnar er svo sannarlega heiðarleg tilraun til að breyta rótgrónum viðhorfum samfélagsins. Hjallastefnan elur upp stúlkur sem vita hvað þær vilja, þora að standa á eigin fótum og hafa ekki alist upp við það að gjalda fyrir kynferði sitt. Forvitnilegt verður svo að sjá hvernig Hjallabörnin munu spjara sig í samfélaginu en þess er ekki langt að bíða að þau fari að koma af fullum krafti á vinnumarkaðinn, enda um það bil 19 ár síðan Hjallastefnan hóf starf sitt.
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021