Á morgun verða 16 mánuðir liðnir frá því að kosið var til alþingis. Það muna það eflaust fáir en kosningabaráttan snérist að miklu leyti um tannvernd, biðlista og það sem kalla mætti kolefnismóral. Mannfólkið virðist nefnilega hafa ríka þörf fyrir að búa við vandamál – býr þau bara til þegar engin eru fyrir hendi.
Staða mála í dag er allt önnur. Skollin er á lánsfjárkreppa á heimsvísu, svo djúp að breski fjármálaráðherrann boðar dýpstu efnahagslægð frá lokum seinna stríðs. Vöxtur íslenskra fyrirtækja og neysla íslenskra heimila var að miklu leyti grunduð á aðgengi að ódýru lánsfé og því er ekki óeðlilegt að skóinn kreppi þegar brunnurinn virðist þurrausinn.
Í dag er engin umræða um biðlista eftir hjúkrunarrýmum. Það talar heldur enginn um að mannréttindi séu brotin í stórum stíl þegar ríkið hleypur ekki undir bagga í tannhirðu barna með foreldrum sem hafa ekki burði í sér til að hafa hemil á gosneyslu barna sinna. Og samviskubitið út af kolefninu, kolefnismórallinn (e. carbon remorse) er horfið. Þegar harðnar á dalnum víkur samviskubitið fyrir sjálfsbjargarviðleitninni.
Á síðustu stigum góðærisins misstu margir jarðtenginguna og áhrifa þess gætir enn. Í Fréttablaðinu mátti sjá nýjan Range Rover auglýstan undir yfirskriftinni „Þú getur komist í hóp hinna útvöldu…“ Já, einmitt, með því að taka Range Rover á rekstrarleigu. Víst er að margir þeirra sem nú eiga í erfiðleikum misstu jarðtenginguna og gleymdu því að skuldir eru höfuðstóll, vextir og verðbætur – eki bara mánaðarleg afborgun sem passar inn í greiðsluþjónustuna eins og staðan er á þeim tíma.
Fyrirtækin voru litlu skárri. Allt snérist um að stækka efnahagsreikninginn. Stjórnirnar, fulltrúar eigendanna, spurðu framkvæmdastjórana af hverju þeir væru ekki búnir að kaupa fleiri fyrirtæki, það væru allir að kaupa fyrirtæki, stækka. Nú er komið á daginn að í mörgum tilvikum óðu menn í villu og svima í þeim aðgerðum, keyptu af kappi en lítilli forsjá.
Allt var þetta mögulegt á meðan íslenska krónan var í hæstu hæðum. Stjórnvöld og fleiri höfðu lengi varað við því að krónan myndi lækka og útflutningsgreinarnar höfðu beinlínis krafist gengisfellingar. Áfram var á sandi byggt en svo kom steypiregn og vatnið óx og óx. En ólíkt dæmisögunni góðu er sá sem byggði á bjargi ekki hólpinn. Björgunaraðgerðir fyrir þá sem byggðu á sandi ógna stöðu þeirra sem byggðu á bjargi. Óttinn við tímabundinn sársauka er svo mikill að lækningin er ekki möguleg.
Ljósið í myrkrinu er þó að jarðsamband er að komast á aftur í íslensku samfélagi. Gervivandamál víkja fyrir raunverulegum vandamálum. Kolefnismórallinn er nú bundinn við 101 Reykjavík og kröfur til velferðarkerfisins raunhæfari. Framundan eru erfiðir tímar en jafnframt mikil tækifæri. Framleiðsluaukning og aukið verðmæti útflutningsafurða er bjargráðið til lengri tíma litið. Raunverulegar lausnir á raunverulegum vandamálum.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021