Á mánudagsmorgun varð töluverð hækkun á helstu fjármálamörkuðum í heiminum. Ástæða þess var ákvörðun bandaríska ríkisins um að þjóðnýta fasteignasjóðina Fannie Mae og Freddie Mac. Hvernig má það vera að sósíalískar aðferðir sem þessar hafi jákvæð áhrif á markaðinn þegar hið andstæða hefur oftast verið raunin?
Vanalega hefur frjálshyggja og einkavæðing gert hagkerfi sterkari og hagfræðinga ánægðri. Aukinn áhrif og afskipti ríkis hafa aftur á móti átt það til að leiða frekar til lækkana. Einkavæðing bankana er til dæmis aðgerð sem olli miklum straumhvörfum í íslensku efnahagslífi, á mjög jákvæðan hátt á sínum tíma.
Álíka aðgerðir hafa þó ekki borið sama árangur undafarið og þurfum við ekki að líta lengra en til hlutafélagsvæðingar SPRON og inngöngu þess félags í íslensku kauphöllina. Það tók innan við ár fyrir sparisjóðinn að verða að nánast engu.
Í þessari gífurlegu niðursveiflu síðasta ár hafa raddir um afskipti ríkisins alltaf orðið hærri með hverjum mánuðinum. Menn ætlast til meiri aðgerða frá seðlabankanum og ríkinu.
En þó að markaðurinn líti jákvætt á þessar aðgerðir þá má spyrja sig hvort þær séu að skila árgangri. Er ekki nauðsynlegt að til leiðréttingar komi eftir allar þær gríðarlegu hækkanir hlutabréfa sem orðið hafa á síðustu 10 árum? Gæti ekki verið að þessi inngrip, eins og þau sem er líst hér að ofan, hafi frekar neikvæðar afleiðingar þegar til lengri tíma er litið?
Kannski leiða aukin ríkisafskipti til meiri stöðuleika og stöðnunar. Við getum litið á Danmörku sem dæmi. Þar er markaðurinn bundinn meiri ákvæðum en hér á landi og margt í verslun og viðskiptum ákaflega gamaldags og hægt.
Er það ekki bara það sem er að? Því með auknum ítökum ríkisins er minni líkur á niðursveiflu en líka á uppsveiflu. Er það eitthvað sem við höfum áhuga á?
- Af veirum og vöðvabólgum - 19. nóvember 2020
- Minningahöll að molum orðin - 5. október 2015
- Steypum yfir miðbæinn! - 30. september 2015