Í dag er ekki óalgengt að „burðardýr” í fíkniefnamálum hljóti dóma upp á 10 til 12 ára fangelsi á meðan morðingjar hljóta oftast nær 16 ára fangelsisvist. Á undanförnum misserum hefur skapast talsverð umræða í þjóðfélaginu um lengd dóma fyrir hin ýmsu afbrot. Umræðan hefur að mestu snúist annars vegar um forvarnargildi dóma og hins vegar um refsigildi þeirra. Þeir sem leggja mikið upp úr forvarnargildi dóma eru lílegri til þess að vera hlyntir þungum dómum í fíkniefnamálum. Þeir sem leggja áherslu á refsigildi dóma telja hins vegar forkastanlegt að nauðgarar og barnanýðingar hljóti mun vægari dóma en burðardýr í fíkniefnamálum.
Í þessum pistli ætla ég að fjalla um þyngd refsinga út frá forvarnargildi þeirra en samt frá nokkuð öðrum sjónarhóli en algengast er. Á Íslandi er sú almenna regla í gildi að refsingar fyrir marga glæpi leggjast ekki saman. Morðingi sem framið hefur tvö morð fær ekki 32 ára fangelsi heldur 16 eða ef til vill 18 ára fangelsi. Í morðmálum koma aðrir glæpir í stórum dráttum til refsiþyngingar innan þess refsiramma sem gildir um morð. Morðingi sem annars hefði fengið 16 ár fær ef til vill 18 ár ef nauðgun eða fíkniefnamisferli sannast einnig á hann.
Í Bandaríkjunum er þessum málum öðruvísi háttað. Þar leggjast refsingar fyrir glæpi saman í mun meira mæli en á Íslandi. Með nokkurri einföldun má segja að glæpamenn fái þar refsingu í réttu hlutfalli við fjölda og alvarleika þeirra glæpa sem þeir hafa framið. Þetta leiðir stundum til þess að glæpamenn með marga alvarlega glæpi á samviskunni hljóta fangelsisdóma upp á mörg hundruð ár. Sumum finnst slíkt fáránlegt. En sterk rök liggja að baki því að refsingar fyrir marga glæpi leggist saman að einhverju leyti.
Skoðum í þessu sambandi þá hvata sem aðili í fíkniefnaheiminum hefur. Segjum sem svo að hann komist að því að einhver ætli að láta lögreglunni í té sönnunargögn um tengsl hans við innflutning á fíkniefnum. Ef það gerist eru allar líkur á því að hann hljóti 12 ára fangelsisdóm. Við slíkar aðstæður er alls ekki ólíklegt að hann komist að þeirri niðurstöðu að það besta sem hann geti gert í stöðunni sé að myrða þann sem ætlar sér að kjafta frá. Ef upp kemst um morðið fær hann 16 eða í vesta falli 18 ár. En á móti kemur að ef til vill telur hann talsverðar líkur á því að morðið komist ekki upp. Ef refsingar legðust saman myndi morðið gera það að verkum að hann gæti átt yfir höfði sér 28 ára fangelsi.
Þannig gera íslenskar refsireglur það að verkum að „kostnaðurinn” af því að fremja morð getur fallið frá því að vera 16 ára fangelsi fyrir þá sem hafa hreina samvisku í það að vera 6 ára fangelsi fyrir þá sem þá þegar hafa fíkniefnamisferli á samviskunni og tveggja ára fangelsi fyrir þá sem þá þegar hafa morð á samviskunni. Forvarnargildi refsinga fyrir morð og aðra glæpi er því óverulegt einmitt fyrir þann hóp manna sem ef til vill er líklegastur til að fremja morð.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009