Bronsið betra?

Þá eru strákarnir okkar komnir heim með silfur og fálkaorðu á brjóstkassanum, og að vonum kátir með það. Þótt við séum stolt og glöð af þessu afreki sýna rannsóknir engu að síður að silfurmedalíur eru þær medalíur sem veita Ólympíuíþróttamönnum minnsta meðaltalsgleði. Væru strákarnir okkar glaðari ef þeir hefðu komið heim með brons?

Þá eru strákarnir okkar komnir heim með silfur og fálkaorðu á brjóstkassanum, og að vonum kátir með það. Þótt við séum stolt og glöð af þessu afreki sýna rannsóknir engu að síður að silfurmedalíur eru þær medalíur sem veita Ólympíuíþróttamönnum minnsta meðaltalsgleði. Væru strákarnir okkar glaðari ef þeir hefðu komið heim með brons?

Það er langt síðan menn tóku eftir því að þeir sem vinna til silfurverðlauna virðast oft ekki upplifa ánægju í samhengi við þann frábæra árangur sem silfurverðlaun alltaf eru. Það er liðin rúm öld síðan W. James skrifaði eftirfarandi athugasemd um málið:

„So we have the paradox of a man shamed to death because he is only the second pugilist or the second oarsman in the world. That he is able to beat the whole population of the globe minus one is nothing; he has pittied himself to beat that one, and as long as he doesn’t do that nothing else counts.“

Og það er liðinn rúmur áratugur síðan málið var rannsakað í þaula af þremur sálfræðingum, sem könnuðu viðbrögð verðlaunahafa á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992. Þeir létu aðstoðarfólk (sem ekki vissi um rannsóknartilgátuna, og hafði lítinn áhuga á íþróttum), gefa verðlaunahöfum einkun eftir því hve ánægðir þeir voru, beint í kjölfar þess að þeir áttuðu sig á því í hvaða sæti þeir lentu, og einnig hversu glaðir þeir voru þegar verðlaunamedalíurnar sjálfar voru afhentar.

Eins og búast má við voru gullverðlaunahafarnir ánægðastir, en það merkilega var að næstir í röðinni voru bronsverðlaunahafar, og silfurverðlaunahafar ráku lestina. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að silfurverðlaunahafar séu pínusvekktir í greinum á borð við handbolta, þar sem undanfari silfursins er tap í úrslitaleik. En áhrifin eru engan vegin bundin við þær greinar. Í hlaupagreinum og sundi á nákvæmlega það sama við: Bronsverðlaunahafinn er ánægðari með að hafa lent í þriðja sæti en silfurverðlaunahafinn með að hafa lent í öðru sæti.

Þegar kannað var nánar hvernig á þessu stæði kom í ljós að silfurverðlaunahafar tala í kjölfar verðlaunanna um hvernig þeim hefði getað gengið, og bera sig saman við gullverðlaunahafann, en bronsverðlaunahafar tala um hvernig þeim gekk í raun og veru.

Þegar um er að ræða þá geira mannlífsins þar sem árangur einstaklinga mælist eingöngu í því hvort þeir hafi staðið sig betur en tilteknir aðrir einstaklingar ætti í sjálfu sér ekki að koma á óvart. Þau gæði sem hljótast af slíkum árangri eru „afstæð gæði“ (relative goods), en ekki „föst gæði“ (absolute goods), og ánægjan af þeim byggir því að mjög miklu leyti á samanburðarhópnum. Hinn eðlilegi samanburðarhópur bronsverðlaunahafa virðist vera allir hinir sem ekki fengu verðlaun, en hinn eðlilegi samanburðarhópur silfurverðlaunahafa virðist vera þessi eini – á allri jarðkúlunni – sem gat hlaupið örlítið hraðar og fengið gull.

Sem betur fer truflaði þetta ekki son minn þegar ég útskýrði að íslenska landsliðið væri það næstbesta í öllum heiminum. Hann hefur ekki verið hér nógu lengi til að gleyma því hversu mörg lönd eru í öllum heiminum, og hversu afskaplega stór þau eru. Afrekið er óumdeilanlegt, og móttökurnar við heimkomuna voru eftir því. Og strákarnir okkar mega svo sannarlega vera stoltir af.

Til hamingju Ísland!


Byggt á: Medvec, V.H., Madey, S.F., & Gilovich, T. 1995. When less is more: Counterfactual thinking and satisfaction among Olympic medalists. Journal of Personality and Social Psychology, 69, 603-610.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)