Stundum er því haldið fram að því stærri sem stjórnmálaflokkar eru, þeim mun erfiðara sé að tryggja samstöðu og samhug meðal flokksmanna. Frjálslyndi flokkurinn virðist sanna hið gagnstæða. Þrátt fyrir að vera tiltölulega smár – með á annað þúsund flokksmenn þegar síðast fréttist – berast að heita má eingöngu fréttir af innanhúsátökum og sundurlyndi úr starfi flokksins.
Nýjasti kaflinn í þeirri sögu er endurinnganga Ólafs F. Magnússonar, fráfarandi borgarstjóra, í flokkinn en hann hefur hingað til tilheyrt Íslandshreyfingunni og F-listanum í borgarstjórn. Þrír af þingmönnum flokksins hafa tjáð sig opinberlega um endurkomu Ólafs og allir hafa þeir talað í kross; einn bauð hann velkominn, annar tók honum illa og formaðurinn gaf óljós svör. Væntanlega er þessi ákvörðun Ólafs til marks um að hann ætli að veðja á flugvallarmálið til að tryggja sér pólitískt framhaldslíf. Að vísu virðast þingmenn flokksins hafa ólíkar skoðanir á því máli en það telst varla til tíðinda í flokknum.
Það er í raun erfitt að verjast þeirri hugsun að Frjálslyndi flokkurinn sé orðinn að einhvers konar flóttamannabúðum fyrir landlausa stjórnmálamenn. Allir núverandi þingmenn flokksins hafa áður setið á þingi fyrir aðra flokka og það virðist ráðast af því hver þingmanna flokksins kemst fyrst í fjölmiðla hver stefnan er hverju sinni.
Sverrir Hermannsson, stofnandi flokksins, er genginn úr flokknum og beinlínis andstæðingur hans í dag. Dóttir hans, Margrét Sverrisdóttir, gekk úr flokknum eftir hatrömm átök við Magnús Þór Hafsteinsson um varaformannsstólinn en áður hafði henni verið vísað úr starfi framkvæmdastjóra. Stór hluti af frambjóðendum flokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum gekk til liðs við Íslandshreyfinguna á síðasta ári. Gunnar Örlygsson gekk úr flokknum þingflokki Frjálslyndra á síðasta kjörtímabili vegna innbyrðisátaka. Ákveðinn hópur innan flokksins aðhyllist innflytjendastefnu sem gerir það að verkum að fyrir aðra flokka er samstarf við Frjálslynda flokkinn nánast óhugsandi.
Það er því ekki að ástæðulausu að ýmsir spyrja sig hvert erindi þessa flokks í íslensk stjórnmál sé í raun og veru. Hugsunin, ef svo má kalla, í málflutningi Frjálslynda flokksins virðist yfirleitt ganga út á eitthvað sem mætti kalla finna og fullnýta mál, þ.e. þeir taka upp á arma sína fullkomlega ósamstæð mál á borð við öfgafulla innflytjendastefnu, afnám verðtryggingar og kyrrsetningu Reykjavíkurflugvallar og kynna sem “stefnu” sína. Þessi mál mynda auðvitað ekki neins konar hugmyndafræðilega heild heldur eiga það sameiginlegt að á bak við hvert mál er ákveðið hljómgrunnur sem fulltrúar Frjálslynda flokksins reyna að nýta sér.
Þannig er hægt að tína inn kjósendur með því að finna einn sem þolir ekki verðtryggingu, annan sem finnst aðeins of mikið af innflytjendum á Íslandi og þann þriðja sem getur ekki hugsað sér að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Svona tínast inn málin á stefnuskrá flokksins eftir því sem vindar blása hverju sinni og á sama hátt tínast inn ósamstæðir smáhópar kjósenda fyrir kosningar. En þegar grundvöllur flokksins er ekki sterkari en svo að hann velur sér fyrst og fremst málefni eftir tímabundnum vinsældum verður samfellan eðlilega lítil og árangurinn eftir því. Möguleikar hans á að komast til áhrifa og raunverulega ná fram þeim breytingum sem stefnumál hans ganga út á eru því (sem betur fer) ansi litlir.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021