Íslendingar hafa margir hverjir myndað sér einhverja skoðun á því hvort rétt hafi verið að fela Kínverjum að halda Ólympíuleikana og eins hvort rétt hafi verið af íslenskum ráðamönnum að þekkjast boð kínverskra stjórnvalda um að taka þátt.
Þessi mál komu m.a. til umræðu á dögunum í þættinum Vikulokin á Rás 2. Þar lýsti einn gesta þáttarins þeirri skoðun sinni að við Íslendingar hefðum ekki efni á því að gagnrýna Kínverja á meðan við brytum mannréttindi hér heima á þeim sem væru að mótmæla og átti þar við félaga í samtökunum Saving Iceland sem höfðu verið handteknir eftir að hafa stöðvað vinnu við virkjanaframkvæmdir.
Þetta viðhorf er býsna útbreitt, að gagnrýni sé metin eftir því hvort sá sem hefur hana uppi hafi „efni“ á því að gagnrýna frekar en að taka efnislega afstöðu til málsins. Undirliggjandi er einhvers konar ótti við að benda á hið augljósa en hengja sig þess í stað í heimatilbúnum sjálfsásökunum. Að vísu er enginn vafi á að Íslendingar hafa eftir þessum mælikvarða fullt „efni“ á því að gagnrýna Kínverja, sem standa fyrir umfangsmiklum mannréttindabrotum gagnvart sínum eigin þegnum. En það sem meira er, þá er slík gagnrýni rétt og mikilvæg.
Eins og rakið hefur verið í leiðurum hér á Deiglunni í þessari viku, sem hefur verið helguð Kína, þá er saga landsins frá stofnun Alþýðulýðveldisins blóðug og ógeðfelld. Þar hafa stjórnvöld myrt og kúgað tugi milljóna þegna sinna til þess að verja eigið valdakerfi. Kínverskum þegnum er neitað um grundvallarréttindi, s.s. tjáningar- og skoðanafrelsi og einræði ríkir í landinu. Ólympíuleikarnir hafa, ólíkt því sem lagt var upp með, ekki knúið kínversk stjórnvöld til að bæta ráð sitt heldur hafa þeir beinlínis valdið því að fleiri mannréttindabrot eru framin, eins og Erla Ósk Ásgeirsdóttir benti á í leiðara nú í vikunni og í fyrirspurn til menntamálaráðherra á þingi nú í vor. Til að mynda tóku skipuleggjendur Ólympíuleikanna upp á því að útiloka geðfatlaða frá því að sækja leikana og var þeirri ráðstöfun m.a. mótmælt hér á landi.
Hugarfarið hjá skipuleggjendum leikanna og kínverskum stjórnvöldum kom ef til vill einna skýrast fram í frásögninni af sjö ára stúlku sem átti að fá að syngja á opnunarhátíð leikanna. Hún hafði verið valin til verksins eftir margar og strangar prufur og skiljanlega verið full eftirvæntingar að fá að takast á við þetta krefjandi verkefni. Á síðustu stundu var henni hins vegar tilkynnt að hlutverkið hefði verið falið annarri stúlku. Ástæðan? Hún þótti ekki vera nægilega andlitsfríð.
Það er nöturlegt að heyra af svona uppákomum og skynja hugarfarið þar að baki. Umbúðir skipta öllu og leiktjöldin verða að vera óaðfinnanleg hvað sem það kostar. Jafnvel þó það þýði að brotið sé gegn öllum prinsippum að baki Ólympíuleikanna, þó lítil börn verði særð, fötluðum meinaður aðgangur og grundvallarréttindi borgaranna séu fótum troðin.
Hugsjónin að baki þessari mestu íþróttahátíð veraldar gengur einmitt út á hið gagnstæða. Ólympíuleikarnir eru hugsaðir til þess að fólk komi saman en ekki til þess að stía þeim í sundur. Lýsing skipuleggjendanna sjálfra á Ólympíuhugsjóninni er í svo hróplegu ósamræmi við framkvæmd leikanna að manni dettur helst í hug að um brandara sé að ræða. Á vef Ólympíuleikanna segir um slagorð leikanna, One World, One Dream, og hugsjónina þar að baki:
„“One World One Dream“ fully reflects the essence and the universal values of the Olympic spirit – Unity, Friendship, Progress, Harmony, Participation and Dream. It expresses the common wishes of people all over the world, inspired by the Olympic ideals, to strive for a bright future of Mankind. In spite of the differences in colors, languages and races, we share the charm and joy of the Olympic Games, and together we seek for the ideal of Mankind for peace. We belong to the same world and we share the same aspirations and dreams.“
Skrautsýningar einræðisríkja þar sem mannréttindi eru ekki virt eru alvarlegt mál og þjóðir heims verða að þora að stíga fram og gagnrýna slík leikrit. Við höfum einmitt ekki efni á að sitja með hendur í skauti og horfa bara á.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021