Helstu stjórnmála- og viðskiptaleiðtogar heimsins – í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu – halda því reglulega fram að með því að eiga í sem mestum viðskiptum við Kína aukist velmegun þar í landi, sem að lokum muni skapa þrýsting frá ört stækkandi millistétt um að ráðist verði í lýðræðislegar umbætur á hinu leníníska stjórnkerfi landsins. Núverandi Bandaríkjaforseti orðaði þetta á þessa leið í kosningaræðu sem hann hélt árið 1999: „Efnahagslegt frelsi veldur því að fólk fer að venjast frelsi. Og þegar það verður vant frelsinu skapast væntingar um lýðræði. […] Stundum frjáls viðskipti við Kína, og tíminn er okkur í hag.“
Þessi ríkjandi skoðun – að viðskipti og lýðræði séu tengd einhverjum órjúfanlegum böndum – endurspeglast einnig í þjóðaröryggisáætlun Bandaríkjastjórnar frá árinu 2006: „Með áframhaldandi efnahagsvexti á Kína eftir að þurfa að mæta auknum kröfum almennings í landinu um að fylgja í fótspor núverandi lýðræðisþjóða í Austur-Asíu og bæta pólitísku frelsi við hið efnahagslega frelsi. Ef Kína heldur áfram á þessari braut mun það stuðla að svæðisbundnu- og alþjóðlegu öryggi.“
Hér er efnahagsstefna Bandaríkjanna gagnvart Kína meðal annars rökstudd með skírskotun til bandarískra hugsjóna og gilda. Frjáls viðskipti við Kína muni færa það smátt og smátt í átt að frjálslyndu lýðræðræðisríki sem virði mannréttindi þegna sinna, sem svo aftur þjónar öryggihagssmunum Bandaríkjanna. Og lýðræðislegt Kína – líkt og önnur lýðræðisríki – mun ekki fara í stríð gegn Bandaríkjunum, samkvæmt kenningunni um lýðræðisfrið.
James Mann bendir hins vegar á það í nýlegri bók, The China Fantasy: How Our Leaders Explain Away Chinese Repression, að það sé einn veigamikill galli á þessari stefnu: Hún byggir á óskhyggju og kreddufullri hugmyndafræði fremur en raunsæi. Mikill meirihluti Kínverja hefur það miklu betra í efnahagslegu tilliti í dag heldur en fyrir fimm, tíu eða tuttugu árum síðan í kjölfar þeirra markaðsumbóta sem stjórnvöld hafa ráðist í og þátttöku Kína í alþjóðavæðingunni. Þjóðartekjur á mann í Kína hafa hækkað um 500% á síðastliðnum fimmtán árum og voru meira en fimm þúsund Bandaríkjadalir árið 2007. Þrátt fyrir þennan gríðarmikla efnahagsvöxt þá fer því fjarri að eitthvað bendi til þess að Kommúnistaflokkurinn sé að missa tök á hinum pólitísku völdum í Kína – eða hafi einhvern hug á því að gefa þau völd eftir sjálfviljugur í náinni framtíð.
Hefðbundinn vísdómur segir okkur að þróun í lýðræðisátt sé óumflýjanleg í Kína rétt eins og í öðrum fyrrum einræðisríkjum í Asíu sem opnuðu hagkerfi sitt, á borð við Taívan, Filippseyjar og Suður-Kóreu. Hins vegar er þá horft framhjá því sem skipti sköpum fyrir því að einræðisstjórnir þessara landa ákváðu að ráðast í pólitískar umbætur heima fyrir á áttunda og níunda áratugnum áratugnum; ríkin áttu öll öryggi sitt í Asíu undir Bandaríkjamönnum komið sem beittu ráðamenn miklum þrýstingi á að halda lýðræðislegar kosningar. Ekkert slíkt á aftur á móti við í tilfelli Kína. Mannréttindar- og lýðræðismál eru æ sjaldnar til umræðu í viðræðum stjórnmálaleiðtoga Kína og Bandaríkjanna. Sú venja sem áður tíðkaðist hjá bandarískum stjórnvöldum, að krefjast þess að pólitískum andófsmönnum sé sleppt úr kínverskum fangelsum í aðdraganda þess að Bandaríkjaforseti heimsækir Kína, hefur nánast lagst niður.
Það ríkir gjá á milli þeirrar orðræðu sem bandarísk stjórnvöld hafa tamið sér í utanríkismálum gagnvart bandarískum almenningi – sérstaklega þegar kemur að Kína – og hvaða þættir raunverulega liggi að baki framkvæmd hennar. Hin svartsýna sýn raunsæishyggjunar til alþjóðastjórnmála, fer nefnilega ekki vel saman við almenna bjartsýni og lýðræðishugsjónir Bandaríkjamanna. Stundum getur reynst erfitt að samræma annars vegar þá raunsæishyggjuhugsun í utanríkisstefnu Bandaríkjanna gagnvart Kína og svo hins vegar þá frjálslyndu hugmyndafræði sem bandarísk innanlandsstjórnmál hvíla á.
Í umræðunni um hvaða framtíð bíði Kína er því of lítill gaumur gefinn að á næstu áratugum muni hagkerfi landsins halda áfram að vaxa á svipuðum hraða, en á sama tíma fylgi engar verulegar pólitískar umbætur í kjölfarið. Eftir tuttugu til þrjátíu ár er sennilegast að Kínverjar muni enn búa við einræðisstjórnarfar – og jafnvel enn lengra fram í tímann. Staðreyndin er raunar sú, líkt og James Mann heldur fram, að slík útkoma veldur helstu stjórnmála- og viðskiptaleiðtogum heimsins, sem eiga í nánum samskiptum við kínversk stjórnvöld, ekki neinu sérstöku hugarangri. Þvert á móti er líklegt að þeir kjósi óbreytt ástand í stjórnmálalífi Kína fram yfir þá óvissu sem myndi ríkja vegna lýðræðislegri stjórnarhátta.
- Hvenær mun kínverska hagkerfið fara fram úr hinu bandaríska? - 21. ágúst 2008
- Af hverju kapítalismi leiðir ekki endilega til lýðræðis - 15. ágúst 2008
- Annað tækifæri - 12. janúar 2008