Kína, Tævan og Tíbet – þessi lönd, eða þetta land eins og sumir vilja kalla það hafa verið talsvert mikið í umræðunni undanfarið. Annars vegar vegna þess hvernig Kínverjar hafa beitt fyrir sig Ólympíuleikunum til þess að réttlæta ýmis brot gegn þegnum sínum og hins vegar vegna þeirra átaka sem átt hafa sér stað í tengslum við sjálfstæðisbaráttu Tíbeta. Tævan hefur jafnframt lengi verið í umræðunni en Kínverjar hafa haldið dauðahaldi í Tævan og notað ýmisa pólitíska klæki til þess að koma í veg fyrir aðrar þjóðir taki á móti tævönskum stjórnmálamönnum og öfugt.
Kína er áhugavert land fyrir margra hluta sakir og þá kannski einna helst stjórnarfarið og sú þróun sem átt hefur sér stað í landinu undanfarin ár. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Alþýðulýðveldið Kína var stofnað 1. október 1949, en undir stjórn Mao Zedong bjó fólk við harðræði og grimmd sem erfitt er að finna fordæmi fyrir í heiminum og létu tugir milljónir manna lífið vegna gjörða hans. Deng Ziaoping tók við af Mao 1978 og kom á því einstaka kerfi sem nú er við líði og enginn hefði getað trúað að virkaði saman þ.e. kommúnismi og markaðshagkerfi (réttara sagt kínversk útgáfa af markaðshagkerfi). Á þessum 30 árum hefur verg landsframleiðsla tífaldast og Kína er orðið næst stærsta hagkerfi í heiminum á eftir Bandaríkjunum (að teknu tilliti til kaupmáttar). Erlendar fjárfestingar í Kína námu um 75 milljörðum bandaríkjadala á síðasta ári og hagvöxtur hefur mælst í kringum 10% á ári undanfarin þrjátíu ár og nú síðast 11,8%. Margir hafa á þessum tíma efast um réttmæti þessara talna og spáð Kína falli, en lítið hefur orðið úr þeim bölsýnisspám. Kína virðist ætla reka allar þessar spár aftur til heim föðurhúsanna, en þessi gríðarlegi vöxtur hefur skilað Kínverjum í fremstu röð á mörgum sviðum framleiðslu.
Í fjölda ára snérust fréttir frá Kína á Íslandi nánast einvörðungu um mannskæð slys af einhverju tagi, en árið 2005 breyttist fréttaflutningurinn allverulega. Það sama ár fór Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands í opinbera heimsókn til Kína ásamt 250 manna fylgdarliði. Fréttaflutningurinn af ferðinni var gríðarlegur enda allir helstu viðskiptajöfrar Íslands með í för í leit að nýjum tækifærum fyrir sín fyrirtæki. Undirbúningur fríverslunarviðræðna Íslands og Kína voru rétt farnar af stað og sáu margir ýmis tækifæri opnast næðu þær fram að ganga, enda Ísland fyrsta og eina landið í Evrópu til þess að fara í fríverslunarviðræður við Kínverja.
Í þessari ferð fundaði forseti Íslands með Hu Jintao, forseta Kína . Á fundinum var farið yfir mörg mál þar á meðal viðskiptatengsl landanna, mannréttindi og margt fleira, en eitt það markverðasta sem kom fram á þessum fundi var að Ólafur Ragnar sagði að sú einingarstefna sem Kína hefði gangvart eigin landi væri studd af íslenskum stjórnvöldum og að Íslendingar styddu Kína sem eina heild eða fyrirkomulag sem kallað hefur verið „One China policy“. Þetta var í fyrsta skipti, að greinarhöfundi vitanlega, sem komið hefur fram að Ísland styddi þessa stefnu, en undanfarið hefur utanríkisráðherra jafnframt tekið undir þessi orð forsetans. Ekki er hægt að skilja þessi orð á annan veg en að við Íslendingar styðjum t.d. ekki sjálfstæðisbaráttu Tíbeta né stjórnvöld í Tævan, sem hlýtur að teljast nokkuð stórtæk yfirlýsing af hálfu Íslands sem ekki fyrir svo löngu háði sjálfstæðisbaráttu sína.
Annað dæmi tengt samskiptum við Alþýðulýðveldið er heimsókn forseta Kína til Íslands og meðferð íslenskra stjórnvalda á meðlimum í Falun gong á meðan á heimsókninni stóð. Íslensk stjórnvöld breyttu út af venju sinni og tóku mjög hart á friðsömum mótmælendum í stað þess að halda á lofti þeim gildum og sjálfsögðu mannréttindum sem við höfum almennt í heiðri á Íslandi. Samskipti við stórveldi eins og Kína geta reynst erfið þar sem þau gefa lítinn sem engann afslátt af kröfum sínum og erfitt getur reynst fyrir litla þjóð eins og Íslendinga að standa uppi í hárinu á Kínverjum. Samskipti þjóðanna verða hins vegar að vera á jafnréttisgrundvelli og við eigum ekki að gefa afslátt af þeim grundvallarmannréttindum sem við gerum kröfu til.
Nú eru fríverslunarviðræður Kínverja og Íslendinga á lokastigi og nauðsynlegt að við gerum Kínverjum það ljóst að öllu er ekki fórnandi fyrir viðskipti og allra síst mannréttindum. Við Íslendingar eigum að vera talsmenn mannréttinda hvar sem við komum. Við eigum að leggja okkar af mörkum til þess að halda umræðunni á lofti og vera öðrum þjóðum til fyrirmyndar og eftirbreytni. Við hefðum t.d. getað sent skýr skilaboð með óáængju okkar á mannréttindabrotunum í Kína með því að senda ekki ráðmenn okkar á opnunar- og lokahátíðina, en því miður kusu ráðamenn okkar að nýta sér ekki þetta tækifæri til þess að koma þeim skilaboðum á framfæri.
Í skýrslu alþjóðlegu mannréttindasamtakanna Amnesty International sem kom út 2007 um stöðu mannréttindamála í Kína, þá helst í Peking, í aðdraganda leikanna er ýmislegt miður fallegt að finna. Greinar um svipuð málefni á Human Rights Watch ber saman um stöðu mála í Kína. Þar kemur m.a. fram að grundvallar mannréttindi á borð við frelsi einstaklingsins, tjáningarfrelsi, ferðafrelsi, trúfrelsi og frelsi til að koma saman hafa verið virt að vettugi. Ljóst er að kínversk stjórnvöld hafa nýtt Ólympíuleikana til þess að réttlæta ýmisar aðgerðir sem ganga gegn grundvallarmannréttindum þegna landsins.
Flestir vonuðust til þess að staðsetning leikanna myndi hafa jákvæð áhrif á þróun mannréttindamála í Kína, en því miður hefur raunin að einhverju leiti verið sú að fólk hefur þurft að þola kúgun, ekki þrátt fyrir leikanna heldur vegna leikanna þar sem alræðisstjórnin í Peking vann hörðum höndum að því að „hreinsa“ höfuðborgina fyrir Ólympíuleikana til þess að allt liti sem best útávið. Glæsileiki Ólympíuleikanna í Peking 2008 hefur ekki farið framhjá neinum, enda hefur miklu verið fórnað þegar sjálfsögð réttindi þegna landsins hafa verið látin fjúka út í veður og vind til þess eins að vinna vestræna viðurkenningu.
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020