Það er öllum ljóst að hagvöxtur hefur verið gríðarlegur í Kína undanfarin ár og áratugi og er landið á hraðri siglingu að verða stærsta hagkerfi í heimi. Sá uppgangur og hagvöxtur sem einkennt hefur Kína hefur verið mikið rannsakaður og sitt sýnist oft hverjum um hvernig áframhaldandi þróun muni verða. Verður jafn ör hagvöxtur áfram í Kína á næstu árum eða er vöxturinn búinn að ná efsta punkti og mun hagkerfið mettast á næstunni?
Uppgangur sá er hefur verið í Kína undanfarna áratugi á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1978 og er sá tími oft nefndur upphaf endurbóta og opnunar (e. Reform and opening). Á þeim tíma var hafist handa við að færa hagkerfið í átt frá fullkominni ríkiseinokun yfir í markaðshagkerfi áþekku því sem nú þekkist víðast hvar. Á þessum árum var til dæmis opnað fyrir einkaverslun bænda með afurðir sínar, menntakerfið var bætt verulega, skólaskylda aukin og landið opnað fyrir utanríkisviðskiptum. Til viðbótar við þetta var fjármálakerfið tekið til endurskoðunar, hið svokallaða miðakerfi (úthlutun ríkisvaldsins á nauðsynjum og aðföngum) sem notað var samhliða peningum var aflagt og farið var í útgáfu ríkisskuldabréfa til uppbyggingar á undirstöðum samfélagsins.
Þrátt fyrir að ennþá sé töluverð miðstýring ríkisvalds í Kína, fjármálastofnanir að mestu í eigu ríkisins sem og fjölmörg stórfyrirtæki, hafa þessar aðgerðir valdið umbyltingu í Kínverska hagkerfinu. Ef spár ýmissa hagfræðinga ganga eftir, er ljóst að strax á næstu 4-7 árum mun Kína taka fram úr Bandaríkjunum og ná efsta sæti í heiminum hvað kaupmáttarjöfnuð snertir (e. Purchasing Power Parity). Árið 2025 mun Kína svo verða stærsta hagkerfi heims, út frá öllum helstu mælikvörðum. Þessar spár eru miðaðar við áframhaldandi raunsæjan vöxt út frá vexti undanfarinna ára, núverandi stöðu, þekktum hagvaxtarkúrfum og fleiri mælikvörðum.
Sú staðreynd að Kína sé stærsta og fjölmennasta ríki heims, með um fimmtung jarðarbúa, getur þó sett hlutina í annað samhengi. Það eru engin þekkt dæmi um slíkan hagvöxt hjá jafn stórri þjóð, og því gætu stærðarhlutföllin haft mettandi áhrif og hægt á hagvexti fyrr en ef um minna ríki væri að ræða. Inn í þetta spila síðan einnig ákveðin atriði sem skapa ójafnvægi sem gætu á einhverjum tímapunkti næstu árin hægt á hagvexti. Dæmi um þetta er mjög lítil neysla almennings og því hátt sparnaðarhlutfall, bil milli fátækra og ríkra og stór munur á þróuðum strandsvæðum og minna þróuðum innanlandssvæðum.
Skýrasta dæmið er líklega neysla kínversku þjóðarinnar. Ef almenn neysla Kínverja myndi aukast, og þó ekki nema nálgast, meðalneyslu hins almenna neysluglaða vesturheimsbúa myndu margar af náttúruauðlindum heimsins einfaldlega tæmast mjög fljótt. Skógar heimsins myndu til að mynda fljótt hverfa (komi ekki til aðrar lausnir) ef allir Kínverjar færu að nota salernispappír! Annað dæmi sem talið er að geti haft áhrif til að hægja á hagvexti, er hin gríðarlega mengun sem aukinn hagvöxtur í Kína hefur í för með sér. Svona mætti telja fjölmörg atriði, sem hefðu engin áhrif í alheimssambandi hjá litlu landi eins og Íslandi.
Þeirri spurningu verður ekki svarað hér hvort Kína haldi áfram næstu áratugi á þeirri miklu hagvaxtarsiglingu sem á undan hefur gengið, eða hvort hægjast muni verulega á næstu árin. Það er hins vegar ljóst að það verður spennandi að fylgjast með framvindunni í Kína á næstu árum og hvort hin mikli fjöldi Kínverja og þau áhrif sem stækkun Kínverska hagkerfisins hefur á heiminn muni valda því að hagvaxtarspár muni kollvarpast, eða standast.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010