Í dag hefur landlæknir birt opinberan lista yfir heilsufarsupplýsingar allra landsmanna. Eru upplýsingarnar teknar úr miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði. Sérstaklega hefur verið birtur listi yfir veikustu, sem og heilbrigðustu einstaklinga landsins í hverju kjördæmi fyrir sig. Er listinn tekinn saman með tilliti til heildarlyfjainnkaupa viðkomandi einstaklinga, fjölda læknisvitjana og heildarfjölda daga sem viðkomandi hefur dvalið á sjúkrahúsi. Þetta er reiknað saman sem heildarkostnaður sem ríkið hefur þurft að leggja út vegna hvers einstaklings.
Reyndar ekki alveg satt – en hið sanna er að ríkisskattstjóri hefur birt nákvæmlega sömu upplýsingar um fjárhagsheilbrigði þjóðarinnar.
Birta heilsufarsupplýsingar um almenning? Það mætti segja manni að það myndu heyrast háværar raddir úr ýmsum áttum þjóðfélagsins, ef tilkynning svipuð þeirri hér að ofan myndi birtast í fjölmiðlum. Slíkt yrði talin algjör hneisa, fullkomin ókurteisi og brot á friðhelgi einkalífsins. En bíðum aðeins við. Hvar væri persónuvernd þá? Og hvernig stendur á því að mörgum finnst ekkert sjálfsagðara en að birta slíka lista yfir fjárhagslegt heilbrigði einstaklinga á sama hátt.
Enn eitt árið hefur ríkisskattstjóri birt álagningarlista opinberlega, þar sem mér og þér gefst kostur á að skoða hvort Jón eða Gunna hafi betri fjárhagslega heilsu. Síðan eru sérstaklega birtir listar fyrir hvert kjördæmi þar sem taldir eru upp þeir einstaklingar sem greiða mest í opinbera kassann. Á alveg sama hátt og fólki finnst heilsufarsupplýsingar persónulegar og sitt einkamál, eru upplýsingar um tekjur og gjöld hvers og eins, hans einkamál. Það verður því ekki séð að nein skynsamleg rök liggi lengur fyrir því að þessar upplýsingar séu birtar á þennan hátt.
Fylgjendur þess að álagningarskrárnar séu birtar, hafa oft bent á að um ákveðið öryggisatriði sé að ræða. Með þessu móti geti almenningur fylgst með nágrönnum sínum, og bent yfirvaldinu á ef grunur leikur á um skattsvik. Raunveruleikinn er hins vegar sá, að afar fáar ábendingar berast vegna þessa sem leiða til ákæru um skattsvik. Hið sanna er að við íslendingar eru einfaldleg með botnlausa forvitni í garð nágranna og vinnufélaga okkar – í þeim eina tilgangi að reyna að grafast fyrir um hvort Landcruserinn í næsta bílskúr sé á lánum eða ekki. Eða hvort Jón eða Gunna sé á hærri launum en maður sjálfur.
Birting álagningarskrár ríkisskattstjóra er algjör tímaskekkja í nútíma þjóðfélagi. Það á að sjálfsögðu að vera ákvörðun hvers og eins hvort hann birtir opinberlega persónulegar upplýsingar. Ekki ákvörðun ríkisins, í svo til þeim eina tilgangi að svala forvitnisþorsta nágranna og vinnufélaga sem hefur ekkert upp á sig nema vott af aðdáun yfir góðum árangri eða öfund og biturð af sömu ástæðu.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010