Doha samningalota Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) var úrskurðuð látin í Genf, laust upp úr klukkan 18 að staðartíma í gær. Níu daga maraþonfundur var að áliti margra seinasta tilraunin til þrautalendingar, eftir sjö ára samningaferli, en strax í kjölfar þess að upp úr slitnaði voru samningsaðilar svartsýnir á að hægt væri að bjarga miklu úr brakinu.
Markmið Doha lotunnar var að komast að samkomulagi um að útvíka samninga um frelsi í alþjóðaviðskiptum, lækka tolla og draga úr niðurgreiðslum. Lotan var kölluð „þróunarlotan,“ þar sem eitt af yfirlýstum markmiðum í upphafi lotunnar var að reyna að bæta hag þróunarríkjanna og auka aðgengi þeirra að mörkuðum á vesturlöndum.
Eftir því sem leið á lotuna kom betur í ljós að göfug markmið máttu sín lítils fyrir sérhagsmunum á alla bóga. Þróunarríkin voru á tímabili samstíga um að mótmæla stöðu vesturlanda – sérstaklega Evrópusambandsins og Bandaríkjanna – en að undanförnu hafði opnast gjá innan hóps þróunarríkjanna. Sér í lagi skáru Indland og Kína sig úr hópnum með kröfum um sérstakar varnir til handa fátækum bændum í dreifbýlum sveitum landanna. Þessar varnir áttu að felast í heimildum til innflutningshafta á landbúnaðarvörum, sem lagðist illa í Bandaríkin og önnur ríki í þeirra hópi.
Fyrir gærdaginn þótti reyndar ekki líklegt að stór raunveruleg skref yrðu stigin í átt til aukins viðskiptafrelsis. Mikið af þeim viðbótum sem voru á samningaborðinu fólust í því að lækka þök á þá tolla sem ríki hafa heimild til að leggja á – en í mörgum tilfellum eru núverandi tollar töluvert undir því þaki sem reglur WTO kveða á um. Engu að síður er brotlendingin sem varð í gær slæmar fréttir af mörgum sökum, þar sem með henni eykst óvissa töluvert, í ljósi þess að í mörgum löndum blása nú vindar kaupskaparstefnu.
Yfirmaður WTO, Pascal Lamy, var að vonum ósáttur við niðurstöðuna. Hann lagði þó áherslu á að hlutverk stofnunarinnar væri enn mikið, og að nauðsynlegt væri að halda áfram að leggja áherslu á þann hluta starfseminnar sem snýr að því að framfylgja regluverki hennar. Hann virtist ennfremur bera í brjósti von um upprisu lotunnar, þótt hann gæti engu svarað um hvernig og hvenær sú upprisa færi fram. Deiglan deilir þeirri von með Pascal.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020